Víkari.is

myndir 040Dagurinn er tekinn snemma og hinn nýji fréttastjóri hins stórkostlega netmiðils víkara.is hefur nuddað stýrurnar úr augunum því ærin verkefni liggja fyrir deginum. Nú skal haldið út í snjókomuna og frétta aflað af miklum móð. Ég tel það næsta víst að þessi nýja tign eigi eftir að stíga mér til höfuðs og ég á án efa eftir að verða enn meira óþolandi en ég er nú þegar en þið verðið að láta ykkur hafa það. Ég hef góða tilfinningu fyrir þessu og held að þetta henti mér ágætlega því ég hef svo gaman af því að skrifa og skálda allskyns lygar um hitt og þetta. Lygasögurnar verða áfram hér á blogginu mínu en þær sönnu verða settar víkararann. Ég hef þegar sett nokkrar fréttir inn á vefinn og ég segi bara alveg eins og er að yfirbragð þeirra og umgjörð öll er til fyrirmyndar að mínu mati. Þarna stendur nýji ritstjórinn vel dúðaður niður á kambinum með Jökulfirðina í baksýn. Hvort skildi vera tignarlegri sjón, ég eða þeir???

Ég hef þó smá áhyggjur af því að sólarhringurinn sé of stuttur fyrir allt sem mig langar að gera því það er svo ótalmargt. Ég veit ekki með ykkur en mér finnst dagurinn alltaf vera að styttast meir og meir og lífið hlaupa áfram á ógnarhraða. Ég held að það hljóti að vera útaf afstöðu sólar og jarðar til tungls eða eitthvað í þá áttina.

William Blake orti:

"Sjáirðu heiminn í sandkorni einu,

og sólina speglast í blómkrónu á grund,

þá eilífðin bara er örskotsstund

og endalaust lífið á brautinni beinu."

Við hjónin fórum í ræktina í gær og ég hjólaði bæjarhluta á milli og svitinn bogaði af andlitinu er ég þaut í huganum á ógnarhraða yfir holt og hæðir. Farið er mishratt yfir eftir því hvaða tónlist er í mp3 spilaranum mínum. Ef lagið er fjörugt svitna ég meira eins og gefur að skilja og kemst væntanlega í betra form fyrir vikið. Barist var á móti storminum í heita pottinn á eftir en hann var ekki nógu heitur þegar til kom og þótti sé ferð ekki vera til fjár. Þó sátum við þar litla stund meðan stormur og él hringuðu sig meðal okkar og notuðu tækifæri og stálu öllum hitanum úr pottinum. Hárið fraus á örskotsstundu, en hvað lætur maður sig ekki hafa til að standa undir nafni Heilsubæjarins í Bolungarvík.

Ætli ég láti þetta ekki duga í bili en hver veit nema ég láti heyra meira í mér aftur áður en dagur er allur.

 

 


Ný tækifæri

Enn einn dagur vona og væntinga er runninn upp og hér sit ég og blogga og get ekki annað. Skattaskýrslan öskrar á mig og heimtar að ég sinni henni ekki seinna en strax því síðasti skiladagur er í dag. Alveg er það makalaust hve erfitt er að koma sér að því að klára að fylla hana út eins og þetta er lítið mál þegar verkið er hafið. Ég tek mér tak í dag þegar ég er búin að blogga, fara í göngutúr, gefa hestunum, versla, heimsækja mömmu............................Ætli ég fái ekki bara frest. Svona gengur þetta fyrir sig fyrir hver virðisaukaskattsskil. Einmitt þá finn ég mér allt til dundurs annað en að klára virðisaukann og ég er til í að gera nánast hvað sem er til að losna undan þessu. Mér tekst samt yfirleitt að skila vsk. í tíma eða svona sirka tvær mínútur í.

Annars hef ég hvorki haft tíma til að setja í uppþvottavélina, þvottavélina eða brauðristina undafarna daga vegna tíðra heimsókna á síðuna mína. Ég þakka ykkur komuna og gleðst yfir því að þið skuluð hafa gaman af þessu og undrast það í raun, þar sem ég hvorki úttala mig um pólitík eða perraskap sem virðist tröllríða bloggheimum þessa dagana og vikurnar. Ég ætlaði mér að vera á léttu nótunum og segja frá einhverju skemmtilegu í þessu spjalli mínu og það greinilega fellur í kramið.

Lífið er steinbíturLífið á höfninni gengur sinn vanagang og þar er oft handagangur í öskjunni. Þarna má sjá silfurhærðan sjómann velja sér vænan steinbít til að skella á pönnuna. Þessi er búin að vera viðloðandi sjómennsku frá unga aldri og þekkir ekkert annað.  Sjórinn lokkar og laðar og þeir sem einu sinni verða hugfangnir af Ægi vera það ætíð. Sumir eru ekki eins lánsamir og þessi sjómaður í viðureign sinni við brimfesta Báru. Nú er söfnun hafin ættingjum skipverjans á Björgu Hauks til handa en hún fórst 13. mars sl. og þar lutu tveir menn í lægra haldi fyrir ógnarmætti hafsins. Eiríkur Þórðarson var annar þeirra og fyrir þá sem vilja styðja við bakið á fjölskyldu hans, er reikningurinn í Glitni á Ísafirði og er númer 0556-26-603900. Kennitala: 060951-3499.

Fundur í hæstvirtu Menningarráði var í gær og aðeins 11 mál voru á dagskrá. Þar vorum við aðalega að fara yfir styrkumsóknir og veita styrki í menningarviðburði. Ákveðið var að auglýsa eftir umsjónaraðilum um að sjá um markaðsdag fyrstu helgina i júli sem haldinn er hátíðlegur ár hvert. Fundurinn var alltof langur og heilinn í mér löngu kominn á yfirsnúning. Það er ekki hægt að sitja á fundum í rúma þrjá tíma án þess að verða hálf ruglaður. Stuttir hnitmiðaðir fundir og eru bestir.

Undir brúnni er yfirskrift myndarinnar hér til hliðar. Lítil bolvísk snót situr Undir brúnnimeð rauða húfu og horfir dreymin inn í framtíðina. Vonandi getur hún séð framtíðina fyrir sér hér fyrir vestan. Við verðum að lifa í þeirri trú að Vestfirðir eigi bjarta framtíð fyrir sér því hér er svo gott að búa. Það er kominn tími til að við náum upp á traustbyggðu brúnna sem brúar boðaföllin hér vestra. Þá getum við með stolti litið yfir sviðið og séð rífandi uppgang með fjölgun atvinnutækifæra og fjölgun íbúa.

vikara.is hefur verði vandi á höndum frá því að ég tók upp á því að blogga. Ég hef haldið úti öflugri fréttasíðu hér á blogginu mínu eins og þið vitið og flutt afar áreiðanlegar fréttir héðan og þaðan en þó aðalega af sjálfri mér. Baldur Smári hefur litið mig hornauga af og til, hálf ráðvilltur yfir þessu öllu saman en skelfing er þetta útsmoginn og séður strákur. Nýverið spilaði hann út öllum sínum trompum og réð vertinn sem umsjónarmann vikara.is og drap þar með niður alla samkeppni. Hann var reyndar búin að setja hjartagosann út áður og krækti í kærustuna sína á hann svo hann var ekki í boði í þessu sambandi. Wink Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni og ég veit að ég á eftir að hafa gaman af þessu. Þarna sjáið þið, það alltaf bíða ný tækifæri handan við hornið. Það er gaman að hlakka til einhvers sem er skemmtilegt og spennandi. Minn fyrsti starfsdagur er í dag.

Lukkan leiðir mig gegnum lífið það er víst ábyggilegt.

Njótið dagsins

 


Auður

 

AuðurAuður systir min á afmæli í dag. Hún er fjórum árum eldri en ég og er því rétt liðlega tvítug. Mér datt í hug að senda henni eftirfarandi ljóð sem er eftir Bjarneyju Jónsdóttur, systur hennar tengdamömmu og er einstaklega fallegt og hittir beint í hjartastað.  

Lékum saman litlar systur og lífið beið.

Og lífið kom með ljós og skugga á langri leið.

Þó saman tvinni þær Sorg og Gleði sinn slungna vef,

þá syngi þér leikandi lukkudísir sitt ljúfa stef.

 

 

Það er mikill auður að eiga þig fyrir systir, Auður.

Til hamingju með afmælið og njóttu dagsins.

 


Undraland

Síðasta leiksýning Lisu í Undralandi var í gærkvöldi og ég bauð Lilju með mér. Mér fannst þetta hin besta skemmtun og var létt mín lund eftir að hafa vafrað um ævíntýraheima Undralands með þeim furðuverum sem þar búa. Þorbjörn fór á kostum sem kanínan og það var svo auðséð að hann hafði unun af því sem hann var að gera og það skilaði sér í leiktilburðum hans. Ég myndi mæla með því að hann færi í leiklistarskólann ef einhver kostur væri á því. Aðrir leikarar stóðu sig ósköp vel og lögðu sig fram og var stórskemmtilegt að fylgjast með svipbrigðum þeirra á sviðinu. Ekki má svo gleyma hljómsveitinni með Halldór Smárason í broddi fylkingar en þessir tónlistarmenn munduðu hljóðfæri sín frábærlega og slógu taktinn sem einn maður. Halldór er flinkur músíkant og stórvinur Valda Olgeirs. Þeir félagarnir ætla að heimsækja mig í Kjallarann við tækifæri.

fr3e2d0432def45[1]

 Ég gerði samning við trúbador sem kemur til mín um páskana og símskilaboð gengu okkar á milli meðan Lísa bjó sig undir veislu drottningar með hattarann og klikkaða hérann sér til halds og trausts. Samningar náðust og það er orðið ljóst að Einar Örn Konráðsson kemur vestur um páskahelgina og ætlar að syngja þessa hátíð upprisunnar inn á miðvikudagskvöldið 4. apríl. Einar Örn tók þátt í keppni trúbadora nýverið og hlýtur því að vera eitthvað í strákinn spunnið og er hann án efa góður gítaristi og söngvari. Hann er Bolvíkingur og því einn af strákunum okkar og ég tel heppilegt að þið takið þetta kvöld frá í tíma. Hver veit nema einhverjar fréttir verði af tilboðum í gömlu kolageymslunni þegar nær dregur en barinn er hýstur þar sem áður var kolageymsla í kjallara Einarshúss. Verslunarlager var einning í kjallaranum því verslun var rekin í húsinu frá fyrstu tíð og fram eftir öldinni. Þvottahús húsráðenda var þar sem " koníaksstofan" er núna og kamínan kom í stað þvottapottsins þar sem allur þvottur heimilisfólks var þveginn. Margar vinnukonur störfuðu í Einarshúsi og er eitt herbergi á efstu hæðinni tileinkað þeim og hefur borið nafnið Vinnukonuherbergi frá fyrstu tíð.

Gríp ég niður í Einars sögu Guðfinnssonar:

Það þurfti að dæla baðvatni í dúnk uppi á lofti í Einarshúsi. Vinnukonurnar höfðu þennan starfa, en komust sumar létt frá honum á stundum. Það komu nefnilega ungir menn aðvífandi og dældu fyrir þær og unnu sumir hug stúlknanna, þó að máski fleira hafi nú orðið til þess en beinlínis dælan. Það er svo sem ekki að fortaka það, en Einar telur ákveðið, að dælan sín hafði stofnað til að minnsta kosti þriggja farsælla hjónabanda og margra barna í þorpinu, og kannski fleiri en vitað er um. Stúlkurnar gátu varla fengið haldbetri staðfestingu á ást en þetta, að piltarnir komu hlaupandi til að dæla, því að dælan var þung og seinlegt að fylla dúnkinn. En þarna stóðu þeir sveittir og dældu og gátu rabbað við stúlkurnar sínar á meðan, - og uppskáru sumir ríkuleg laun um síðir. Vinnustúlkur í Einarshúsi vóru oft bestu kvenkostir plássins.

Lítið hefur breyst í áranna rás því vinnukonurnar í Einarshúsi er enn bestu kvenkostirnir í plássinu og þykja bera af hvar sem þær koma. Smile

Annar geðugur gítaristi kemur til mín á miðnætti á Föstudaginn langa því Denni eða Steingrímur Rúnar ætlar að mæta og spila fyrir okkur velvalda slagara fram á rauða nóttina. Þar lætur enginn sig vanta frekar en fyrri daginn þegar Denni kemur hingað úteftir frá höfðuðstað Vestfjarða og upplagt er að taka vel undir og hafa gaman. Svo þið sjáið það að af nógu verður að taka hér vestra um þessa helgi og engum á að þurfa að leiðast.

Hefbundin störf bíða í dagsins önn. Hestarnir bíða tuggunnar sinnar og leið mín liggur í hesthúsin rétt bráðum. Þar er viðbúnaðarástand í augnablikinu vegna snjóflóðahættu svo ég verð að fara varlega og ætla að rýna vel upp í Erninn áður en ég legg í að hitta þessa vini mína. Hugsið ykkur að öll þessi fallegu fjöll sem umlikja þennan stað og gefa manni þrótt og þor geta breyst í ógnandi furðuverur þá og þegar. Þetta er sannkallað Undraland sem við búum í og ef einhver lendir í ævintýrum hér þá er það svo sannarlega ég.......Lísa

 

 

 

 

 


Gestagangur

Yfirgefinn í  fjörunniVeðurguðinn Seifur hefur sennilega verið einn af þeim rúmlega 400 gestum sem sóttu síðuna mína heim í gær. Hann hefur ákveðið að taka sér tak og breyta um takt því veðrið í dag er dásamlegt. Makalaust hvað við Vestfirðingar þurfum að tala mikið um veðrið. Það hefur auðvitað þær skýringar að okkar aðalafkoma hefur tengst sjósókn í gegnum tíðina og þar hefur veðurfar útslitavald um hvort hægt sé að sækja sjóinn eður ei til að draga björg í bú. Báturinn hér til hliðar má þó muna sinn fífil fegri og liggur hjálparvana í fjörunni. Hann hefur án efa skilað góðu verki og hýst bæði þorska, ýsu og ufsa. Hans dagar eru nú taldir og hann siglir sæfesta Dröfn ei meir. Ég veit þó ekki hvaðan þessi bátur kemur eða á hvaða leið hann er. Ég vona að hann hafa þarna stutta viðdvöl og verði ekki látinn grotna niður í fjöruborðinu og að eigendur hans taki hann undir sinn verndarvæng og fargi honum á viðeigandi hátt.

Húsbóndinn lenti mjúklega í morgun á flugvellinum eftir frábært flug í sól og blíðu. Mannmargt var á flugvellinum enda var ekkert flogið í gær og fjölmargir þurftu að komast á milli staða. Ég hitti svo marga sem ég þekkti á vellinum og þurfti að tala við þá alla eitthvað smávegis. Það virðist losna meira og meira um málbeinið á mér eftir því sem ég eldist og stundum er ég nær óstöðvandi og bara masa út í eitt. Ætli það sé til eitthvað við þessu ? 

Sigurður Jónasson fyrrum lögregluhundamaður var á vellinum ásamt Soffíu Karlsdóttur konu sinni semFýrugir fýkniefnahundamenn. kom hér vestur til að halda tónleika á Langa Manga. Þau voru upplýst í snarhasti um þessa frábæru krá í Kjallara Einarshúss sem tilvalin stað til tónleikahalds. Þau viðurkenndu hálfskömmustuleg að hafa ekki heyrt á hana minnst en þau munu koma og troða þar upp á ferðalagi sínu komandi sumar. Ég fékk geisladisk með söngkonunni og fór því heim bæði með karlinn og geisladiskinn"wild horses" í farteskinu. Ég læt flakka með mynd af þeim fjórum lögreglumönnum sem unnu með fíkniefnaleitarhunda á árinu 2000. Þar má sjá  Nökkva okkar sem við áttum í tíu ár og var þvílík gæðaskepna að leitun er að öðru eins. Hann lék í kvikmyndinni, Í faðmi hafsins, sem Lýður læknir gerði á sínum tíma og lék þar eitt af aðalhlutverkunum og stóð sig með prýði. Það var ótrúlega erfitt að sjá á eftir Nökkva þegar hann yfirgaf okkur. Fyrrnefndur Sigurður er lengst til hægri á myndinni með Flóka.

Ef minnið bregst mér ekki þá á Fanney bekkjarsystir mín afmæli í dag á síðasta degi Góu. Það er margs að minnast frá uppvaxtarárum okkar því við brölluðum mikið saman. Ég sendi henni afmælisóskir í tilefni dagsins. Hún er mér kær þessi gamla og góða vinkona. Einmánuður hefst með pompi og prakt á morgun og dvelur hann við í mánuð eða þangað til Harpa lítur dagsins ljós þann 19. apríl á sumardaginn fyrsta.

þökkum þennan fallega dag með breiðu brosi því það er gaman til þess að vita að það er hægt að eyða heilum degi í að taka á móti brosum frá ókunnugum - og helmingi fleirum ef maður brosir sjálfur fyrst.

 

 

 


Sagan af Seif

Öllu flugi er aflýst í dag hingað vestur svo húsbóndinn er veðurtepptur í höfuðborginni fram á morgundaginn. Flugfarþegar þurftu þó að þola nokkur hopp og skopp yfir Ísafjarðardjúpi áður er flugvélin tók ákvörðun um að snúa aftur suður. Það er aldrei skemmtilegt að komast ekki á áfangastað á réttum tíma en yfir veðrinu ráðum við víst ekki.  Gengið hefur á með dimmum éljum í dag en birt hefur þess á milli. Þessi veðurguð á mjög erfitt með að ákveða úr hvað átt hann blæs og með hvað hætti hann lætur lægðir og hæðir leggjast enda virðist hann hafa öðrum hnöppum að hneppa ef marka má sögusagnir úr grískri goðafræði. Þar segir að Seifur sé æðstur goðanna og talinn bæði almáttugur og alsjáandi veðurguð. Þrátt fyrir að vera giftur Heru systur sinni, kom Seifur sér upp mörgum hjákonum og eignaðist með þeim fjöldann allan af börnum. Margar sögur eru til af kvennafari hans, bæði með gyðjum og mennskum konum, og afbrýðisemi Heru sem fylgdi í kjölfarið. Seifur gat breytt sér í ýmis dýralíki og blekkti oft konur með því til samfylgis við sig eða tók þær jafnvel nauðugar. Ég vona að hann fari að láta af þessu kvennastússi sínu og standi sig betur í því sem hann var ráðinn til að gera og fari að blása sunnanvindum bliðlega til okkar sem bræða burt snjóinn og ilja okkar hjarta.

Alþingi hefur lokið störfum í bili og er komið í frí fram á haust. Vænta mér einhverra breytinga á þingmönnum eins og venja er eftir kosningar og gaman verður að sjá ný andlit. Ég stend þétt við bakið á mínum mönnum í Sjálfstæðisflokknum enda eru traustir menn þar í framvarðasveit.

Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður er næsti spyrill í Kjallarakeppninni á föstudaginn kemur ef allt gengur eftir. Ég vona svo sannarlega að hann snúi sér af fullum krafti í að semja spurningarnar fyrst þingið er komið í frí og standi klár á keppninni. Hann var stærðfræðikennarinn minn þegar ég var í grunnskólanum og finnst mér líklegt að hann komi með einhverjar snúnar spurningar þar sem stærðfræðikunnáttu er krafist. Kristinn á án efa eftir að spyrja spurninga sem tengjast frjálslyndum framsóknarmönnum og þá er um að gera að hafa svarið á hreinu. Gárungarnir gerðu grín að spurningum Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra sem eitt sinn spurði í Kjallarakeppni og sögðu hann ekki hafa spurt út fyrir túnfótinn í Ögri en þessar spurningar geta verið úr öllum áttum og um hvað sem er. Mér fannst þó Halldór hinn besti spyrill.

Við Elsa könnuðum hitastigið á pottinum í dag en bæði sundlaugin og heitu pottarnir eru hitaðir sérstaklega á sunnudögum og gufan er opin fyrir alla. Það hreinsar bæði sál og líkama að komast í sundlaugina og maður verður eins og nýr maður á eftir.

HeiðurshjónEkki er hægt að hugsa sér betri stað til að stoppa á eftir góðan sundsprett en hjá mömmu og pabba og fá kaffisopa. Heppnin var með mér eins og svo oft áður því ilmur af nýbökuðum pönnukökum lagði fyrir vitin er ég keyrði upp að húsinu þeirra og sjóðheitt súkkulaði var borið fram með róma og öllu tilheyrandi. Þarna má sjá þau mömmu og pabba í eldhúsinu heima á Miðstræti 15. Pabbi hefur búið í þessu húsi alla tíð eða frá því að hann var tekinn í fóstur fljótlega eftir fæðingu. Húsið var upphaflega byggt árið 1892 en Steingrímur Torsteinsson lét byggja það en hann flutti síðar til Ameríku. Húsið stóð þá á Ytri Búðum og var torfklætt en timburklætt að innan. Síðan hefur verið byggt við húsið og það lagað og er bara krúttlegt og fínt.

Mamma er mikil húsmóðir og hefur gaman af eldamennsku og bakstri. Hún bauð mér í skötu nú áBroshýr við bakstur dögunum og ávexti og rjóma í eftirrétt og mér fannst ég vera komin í messu hjá Þorláki heitnum og upplifði hálfgerða jólastemningu. Skatan bragðaðist hið besta.  Ég hef ekki erft þennan áhuga á matargerð frá henni sem er auðvitað miður, því það er nefnilega bagalegt að vera "bara" húsmóðir og hafa ekki gaman af þessum típísku heimilisstörfum eins og að elda mat og þrífa klósett og annað álíka skemmtilegt. En þetta hefur samt gengið svona þokkalega öll mín búskaparár og allir eru vel lifandi og virðast hafa komist þokkalega frá öllu saman. Ég er svo heppin að tengdamamma hefur sko alls ekki gaman af því að elda heldur svo húsbóndinn er því flestu vanur og er þakklátur hverju því trosi sem ég ber á borð fyrir hann. Annars get ég eldað mjög góðan mat ef svo ber undir.

Við Elsa erum að steikja kótilettur í sameiningu milli þess sem ég blogga.

Kvöldmaturinn heima; hlýlegt skarkið úr eldhúsinu, lokkandi ilmurinn sem leggur um allt húsið svo maður fær vatn í munninn: Þetta er næg ástæða til að gleðjast.

Verum því glaðir.

Heyrumst á morgun


bb.is breytir um svip

bb.is er búið að breyta um svip og finnst mér þetta nýja útlit vera nokkuð gott. Það þarf reyndar að venjast því eins og öðru en ég held að þessi breyting sé til batnaðar. Ég ætlaði reyndar að fletta upp í netsímaskránni en fann hana ekki á þessum ágæta vef við fyrstu leit svo ég greip þá gömlu góðu og fann þar númerið sem ég leitaði að. Mér hefur þótt þægilegt að geta flett símanúmerum upp á netinu á forsíðuvef bb. Annað sem vakti athygli mína er, hversu vel völdum bloggurum eru gerð góð skil á síðunni og þá sér í lagi tók ég eftir því að Vertinn sjálfur prýddi forsíðuna í dag og gaf henni ferskari blæ og bjartara yfirlit. Aðrir minna þekktir bloggarar fá þó að njóta sín í einhverju mæli ef vel er að gáð. Smile  

Ég ætla að halda þessum dagbókarfærslum mínum sem ég skrái niður fyrir mig og ykkur til haga og hver veit nema ég láti binda þær inn við tækifæri. Ég hugsa með tilhlökkun til þess að geta lesið þessa hugrenninga mína á elliheimilinu og rifjað upp hvað lífið mitt var skemmtilegt og spennandi. Ég sé mig alveg í anda níræða niðursokkna í blogglestur með Höllu og Gógó í herbergi sitt hvoru megin við mig. Þær verða auðvitað löngu komnar út úr heiminum og vita hvorki í þennan heim né annan en tilhugsunin um að hafa þær hjá mér gerir þessa framtíðar músik svo notalega.

Pétur kom sá og sigraðiSpilavistin í gærkvöldi fór vel fram að vanda og grand og nóló voru spiluð af mikilli fagmennsku. Ester Hallgríms og Brynjólfur Bjarnason voru með fæstu stigin eftir kvöldið og fóru heim með Villa Valla og það er nú ekki amalegt. Elín Ólafsdóttir og Árni Guðmundsson voru sigurvegarar kvöldsins og fengu að launum glæsilega kertastjaka og kerti sem ég keypti í Bjarnabúð og Stefanía pakkaði inn af mikilli alúð. Aðalsigurvegarinn frá þriggja kvölda keppninni sem ég sveik um verðlaun siðast fékk svo eina flösku að ljúfu hvítvíni og tvö eðal kristalsglös til að nota undir þær guðaveigar. Pétur Jónsson getur því boðið frúnni upp á dágóðan drykk úr dýrindis glösum við næsta góða tilefni. Spilavistin er gott innlegg inn í menningarlíf staðarins og fleiri hugmyndir hafa verið bornar til mín á silfurfati sem innihalda óskir Bolvíkinga sem auðgað geta mannlífið hér og ætla ég mér að gera það eins fljótt og ég sé þess kost. Það er nefnilega svo gaman að gera eitthvað skemmtilegt saman.

Það hafðist að klára afmælisbraginn í tíma og gat ég skilað honum af mér í gærkvöldi. Ég held að hann hafi lukkast ágætlega og vonandi vekur hann kátínu hjá afmælisbarninu. Kannski fæ ég að leyfa ykkur að sjá hann í fyllingu tímans. Það er gott að geta skilað af sér góðu verki. Fleiri verkefni tengd kveðskap liggja fyrir og vinnast eftir hendinni.

Til stendur að fara á AA fund á Ísafirði í kvöld og ég segi það alveg hreint út að mér er það eiginlega bráðnauðsynlegt að komast þangað. Einhverjar spýjur eru þó að falla hér og þar enda veðurskilyrði með þeim hætti að snjóflóð geta fallið þá og þegar. Fundurinn er haldinn í einu fegursta húsi Ísafjarðar sem nefnist Bjarg og er eitthvað svo einkennandi fyrir það hyggna fólk sem þar kemur saman. Þeir sem viðurkenna að eiga í vanda með áfengi eru nefnilega engir heimskingjar sem byggja hús sín á sandi. Það þarf kjark og þor til að standa upp og viðurkenna að eiga í þessum erfiðleikum og það var mér mjög erfitt. Það var eins og að skella á vegg með ógnarhraða. 

Bekkurinn hennar Lilju stendur í stórræðum og vinnur efni tengt reykingum af miklum áhuga. Þar Upptökur í Kjallaranumhafa þau Björgvin kennara sinn sér til halds og trausts. Þau fengu Jóa kvikmyndagerðarmann til að taka upp herlegheitin og fengu að koma í Kjallarann í dag en þar voru tekin upp nokkur skot. Þau vinna eins og fagmenn og Jói hælir þeim á hvert reipi fyrir dugnað og vinnusemi. Ég bjó til lag og texta sem þau nota í þessari "stuttmynd" og hafa þau sungið lagið hástöfum í hvert sinn sem þau hitta mig og ég hef svo gaman af því. Mér finnst þetta svo heilbrigðir krakkar sem bera virðingu hvert fyrir öðru en gagnkvæm virðing er svo mikilvæg í samskiptum manna á meðal. Það er ekki hægt að eiga samleið með þeim sem bera ekki virðingu fyrir sínu samferðafólki.

Nú sér varla út úr augum vegna illviðris en ég ætla að hætta að skammast yfir þessu fárviðri sem geysar hér dag eftir dag enda hefur það enga þýðingu. Nú sér varla út úr augum vegna snjóstorms og búið er að loka Súðavíkurhlíð og útlit fyrir að Óshlíðinni verði lokað í kvöld svo ég skríð undir teppi og hef það gott þar til ég opna Kjallarann um ellefu leitið og fer ekkert að æða inn á Ísafjörð. En fyrst ætla ég að fá mér að borða því ilmandi pizzuilm leggur fyrir vit mín núna því Elsa er að elda pizzu sem án efa á eftir að bragðast guðdómlega.

Verði ykkur að góðu.


Spræk og hress

Enn kyngir niður snjónum með hálfgerðum éljagangi . Ég verð nú bara hreint að segja alveg eins og er að ég vanþakka alla þessa ofankomu og fer þess á leit við þann sem hefur umsjón með allri þessari snjósöfnun að fara  að snúa sér að öðru og koma með betra veður. Þetta er auðvitað eintómt vanþakklæti og óþarfa nöldur en svona er þetta samt. Ég nenni ekki að moka frá útidyrunum og skafa sínkt og heilagt af bílnum.

Nú vinn ég að gerð afmælisbrags fyrir sextugan strákpjakk svo þá verð ég að kúpla mig út úr blogg gírnum og fara í annan gír. Það er gaman að yrkja þegar maður er í stuði en oft er ansi erfitt að koma sér í rétta gírinn. Þá dansa orðin fyrir hugskotum mínum eins og ballettdansmeyjar sem allar kunna upp á hár réttu sporin og þegar ég dett niður á endarím og skondnar innhendingar er eins og ég sé lítill krakki sem fær sælgæti. Ég verð helst að klára braginn í dag.

Enn gríp ég niður í heilsubæklinginn frá Belís heilsuvörum, bara til að fara út í daginn í góðu skapi. Þar gefur augum að líta Bandex úthaldskrem fyrir karlmenn sem á víst að koma að góðum notum þegar leikurinn stendur stutt eða jafnvel aðeins í nokkrar mínútur með tilheyrandi vanlíðan og vonbrigðum. Við notkun Bandex verður undirbúningurinn góður og úthaldið betra og er þetta bráðnauðsynlegt krem til að koma í veg fyrir sár vonbrigði. Strákar mínir, þá vitið þið það. Þar má einnig sjá nefháraeyðir sem sem gengur fyrir rafhlöðum og gerir skyldu sína fljótt og vel og er algjörlega hættulaus. Háreyðing úr nefi og eyrum getur verið sársaukafull eins og allir vita og er þetta töfratæki því án efa mjög þarft í dagsins önn. Þessi bæklingur er stórskemmtileg lesning.

 

Ester og pabbiSpilavistin er í kvöld og þá verð ég að bæta fyrir þau mistök sem ég gerði á síðustu spilavist en þá reiknaði ég stigin rangt út og sigurvegarinn sat eftir með sárt ennið. Núna fær hann sín verðlaun og vonandi fyrirgefur hann mér klaufaskapinn.

Annars er ég vongóð um að einhverjir komi og troði upp hjá mér um páskana og hef ég haft spurnir af enn einu bandinu sem er í smíðum og ætlar að stíga á stokk í  Kjallaranum þessa helgi. Það verður án efa skemmtilegt.  

 

 

Að öðru leiti er ég bara nokkuð spræk og hress.

Læt kannski heyra aftur í mér í dag ef mér gengur vel með braginn.

Smá gullkorn í tilefni dagsins:

"Hægðu á þér og njóttu lífsins. Ef þú ferð of hratt missirðu ekki aðeins af fegurð landslagsins- þú tapar líka tilfinningunni fyrir því hvert þú ert að fara og hvers vegna."

 

 


Spilavist

SpilavistSpilavistin heldur áfram að venju á föstudagskvöldið 16. mars en hún er haldin annan hvern föstudag í Einarshúsi. Það hefur verið góð mæting á spilakvöldin og fólk hefur skemmt sér hið besta. Mikil stemning ríkir á slíkum kvöldum og fólk nýtur þess að koma saman yfir spilum, kertaljósum og kósýheitum og njóta samvistanna hvert við annað. Spilað hefur verið á átta borðum undanfarin kvöld og það telst mjög gott. Aðgangur er 500 krónur og hefst spilavistin kl. 21:00.

Hinsti dans

Drungi hefur verið yfir okkur hér vestra í dag og doði hefur einkennt mannlífið. Náttúruöflin geta verið svo grimm og miskunnalaus hér fyrir vestan. Skipverjar á bátnum Björgu Hauks lentu í gærkvöldi í hatrömmum dansi við hina ólgandi Dröfn við erfiðar aðstæður hér rétt fyrir utan. Sá krappi lífsins dans var sá síðasti sem þessir bátsverjar koma til með að stíga okkar á meðal. Björgunarbátur bar þá að landi með bláa vör eftir öldunnar koss og mikill harmur er að okkur kveðinn.  Snjónum hefur kyngt niður í dag og hann hefur gengið á með dimmum éljum sem er nokkuð einkennandi fyrir svona sorgardag. Þó reyndi sólin að skína í gegn við og við til minna okkur á, að það birtir alltaf upp um síðir og ætíð skulum við halda í vonina um bjartari tíma með sól í haga og blómstur í tún. Hugurinn er hjá þeim sem eiga um sárt að binda.

Eitt sinn samdi ég vísu til vinar:

Í lokin kemur kveðjan þessi

því komið er að hinsta dans.

Góður Guð nú Valtý blessi

og gæti vel að sálu hans.

Valtýr þessi var mágur tengdamömmu minnar og mikill vinur okkar. Hann var frá Laugarbóli í Arnarfirði og var bróðir Alla á Laugarbóli sem margir kannast við. Valtýr hélt mikið upp á okkur Vestfirðinganna og oft var glatt á hjalla þegar við hittumst. Hann var mjög vestfirskur í útliti og minnti mig oft á hann pabba. Afskaplega fallegur maður, hraustlegur, góðlegur, brúnn og brosmildur.

Siggi á Hóli við merkiðGúllassúpan bragðaðist hið besta hjá körlunum mínum í Lion og gat ég ekki betur séð en þeir væru bara nokkuð ánægðir. Ég veit þeir fóru ekki svangir heim frekar en vanalega en mig grunar að þeir svelti sig heilu hungri svo þeir geti etið á sig gat á þessum kvöldmáltíðum í Einarshúsinu einu sinni í mánuði. Ég eldaði fyrir heila herdeild og ekki veitti af. Það boðar vorkomu þegar Siggi á Hóli kemur heim eftir vetursetu í höfuðborginni og notalegt að fá hann í kvöldmat. Ég hafði komist í tæri við gamlar gersemar og hengdi upp á vegginn í kvöld Lion til heiðurs. Kom þá í ljóst að fyrrnefndur Siggi á Hóli hafði teiknað það fyrir margt löngu síðan og smellti ég mynd af karli við skiltið.

Ég átti stefnumót í kvöld við sponsorinn minn sem er ung kona á Ísafirði. Það var eitt af skildu verkefnum mínum eftir meðferðina að fá mér sponsor eða trúnaðarkonu og ég er loksins búin að stíga það skref og ég er mjög sátt við það. Öll skref sem við stígum fram á veginn og eru okkur til heilla eru skref í rétta átt. Við gátum reyndar ekki hist í kvöld því mér þótti Óshlíðin frekar ótrygg og vildi ekki storka örlögunum. Ég hræðist reyndar aldrei að keyra Óshlíðina en einhver beygur var í mér í dag þegar ég fór þar um. Það stóð "VARÚÐ" á skiltinu og élin voru dimm og brimið olmaðist í fjöruborðinu. Mjög sjaldgæft að ég finni fyrir slíkum óhug en trúlega var það bara eitthvað í andrúmloftinu hér í dag sem gerði þetta að verkum. Ég ætla að hitta sponsorinn minn yfir kaffibolla á morgun. 

Ég hef orðið vör við að gestkomum fjölgar á síðuna mína og ég er upp með mér hversu margir hafa áhuga á þessum hugrenningum mínum. Fyrst hélt ég að einungis nánustu vinkonur mínar og í mesta lagi vinkonur þeirra myndu lesa þetta bull en ég sé að Pétur og Páll, Gvendur og Gísli, Friðgerður og Freyja og allir hinir lesa þetta bara eins og ekkert sé sjálfsagðara. Ég er ánægð með ykkur og sérstaklega held ég upp á þá sem kvitta í gestabókina eða koma með komment. Mér finnst gott að eiga ykkur að.

Eitt pínulítið gullkorn fyrir háttinn úr hamingju bókinni sem Benni og Fjóla gáfu mér.

Öll getum við fundið huggun í hvísli látinna ástvina okkar.

Það hljómar eins og þytur í laufum trjánna.

Eigið góða nótt svo við getum gengið með gleði inn í nýjan dag.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Mars 2007
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband