Ljúfur laugardagur

Laugardagur til lukku stendur skrifað og þessi er engin undantekning frá þeirri reglu. Ég er búin að vinna á skrifstofunni í dag og virðisaukinn er frá. Þvílíkur léttir.  

Spilað var á fjórum borðum í spilavistinni í gærkvöldi sem er fínt þar sem margir af fastaspilurunum eru í burtu. Skammarverðalaun hlutu Ester Hallgríms og Doddi en hann hefur vermt neðsta sætið fyrr, hlutu þau kassa með eðalsúkkulaði rúsínum að launum.  Sigurvegarar kvöldsins voru Hrólli Addýar og Pétur Jónsson og fengu þeir geisladisk með Villa Valla í verðlaun, en Halldór í Ögri gaf mér nokkra diska með þessum fyrrum bæjarlistamanni Ísafjarðarbæjar. Allar slíkar gjafir eru vel þegnar og koma sér vel. Nokkrir tónelskir tónlistarmenn og geðugir gítaristar hafa troðið upp í Kjallaranum og taka þetta til sín.

Áfram var spilaður rakki og kani fram eftir nóttu og slæðingur leit inn á kránna og sötraði söngolíu og sat að spjalli. Fínt kvöld með góðu fólki. Hljómsveitin Abba hljómaði í húsgræjunum ásamt írskum drykkjusöngvum við góðar undirtektir gesta.

Stútungur er út af borðinu svo Kjallarinn verður opinn í kvöld. Ég heyrði á kúnnunum mínum að þeir fylgjast með helstu uppákomum í Einarhúsinu á blogginu minu svo ég verð að reyna að standa mig áfram og blogga um það helsta sem ég bíð upp á.

Ætli ég drífi mig ekki í göngutúrinn á eftir. Snjóslæða hefur lagst yfir tún og engi og umhverfið því bjart yfir að líta þó farið sé að rökkva. Það hressir bætir og kætir að fara í góða gönguferð í góðu veðri og njóta þess fallega útsýnis sem hér er í boði.

Verið svo stillt og prúð og gerið nú ekkert sem ég myndi ekki gera Wink

 

 

 


Út að borða

Bóndinn sló um sig í dag og bauð mér út að borða í hádeginu. Ég bjóst við rómantískum hádegisverði með kertaljósi og kósýheitum og var því full tilhlökkunar og eftirvæntingar. Ég klæddi mig upp á í kjól og hvítt og mætti þar sem mér var ætlað. Bóndinn strunsaði síðan með mig á efstu hæð stjórnsýsluhússins á Ísafirði þar sem pönnukökur fylltar af hrísgrjónum og gulum baunum biðu á þar til gerðu fati. Hlynur Snorrason og Helga Dóra í Tröð sátu með okkur til borðs og gerðu stundina ögn bærilegri og ég er ekki frá því að nærvera þeirra hafi náð að skapa rómantískt andrúmsloft um stund. Þess ber að geta að maturinn kostaði tvo matarmiða á mann og inn í því var sallad, sínalco og sósa.

 

 


Horft til hafs

Ég sé að veðrið er gott og stillt. Steinhúsið gnæfir eyðilegt niður á Kambinum og horfir til hafs minnugt liðinna tíma þegar húsið iðaði af lífi. Maddý mágkona mín og Einar eiga húsið núna. Vonandi tekst þeim að reisa það aftur til vegs og virðingar þegar um hægist hjá þeim. Skin jólaljósanna hjá Magga Hans er eitthvað farið að dvína og lífið er að komast aftur í fastar skorður. Bakkavík hefur slökkt á skútunni sem gnæfir yfir bæinn um dimmasta skammdegið. Það birtir meira með hverjum deginum sem líður og birtan lýsir upp huga og hjarta.  

Ég var að opna tölvupóstinn minn og sá þá bréf frá Steinþóri Bragasyni er varðar vegamál á Vestfjörðum þar sem hann leggur til að könnuð verði hagkvæmni þess að að tengja þjóðveg 61, Djúpveg í Kollafirði, með göngum þaðan í Ísafjörð í stað þess að leggja láglendisveg um miðbik Reykhólasveitar. Ég á eftir að lesa betur yfir hugmyndir hans og spekúlasjónir.

Mér finnst mjög ánægjulegt að framkvæmdir við Djúpveg skuli vera hafnar og hlakka til þegar ég get keyrt allt Djúpið á bundnu slitlagi.

Sá á pistlinum hans Gríms að Sigur Rós er húsnæðislaus. Ég tel það næsta víst að þeir hugsi með hlýhug hingað vestur og bíð þá velkoma. Ég myndi meira að segja lána þeim Kjallarann til að koma sinni músik á framfæri. Svona er ég nú góð inn við beinið. 

Andri fer í flugprófið í dag svo loksins sér fyrir endann á þessu flugnámi hans. Hann er óttaleg óveðurskráka og oftar en ekki hefur helst yfir höfuðborgina stórt og mikið óveðursský þegar hann hefur átt að fara í flugtíma svo þetta nám hefur dregist fram úr hófi. Flugkennarar Flugskóla Íslands voru farnir að bregða á það ráð að bóka hann undir dulnefni til að leika á veðurguðina og var hann nefndur Ægir þegar svo bar undir. Ég er frá því að það hafi haft eitthvað að segja.

Elsa verður átján ára á næstunni og mikil tilhlökkun fylgir því. Samkvæmt nýjustu fréttum er stór afmælishátíð í vændum þar sem mikið verður um dýrðir og mörgum boðið. Vakin hefur verið athygli á því að gamalt fólk sé ekki vel séð í slíku teiti og þar er væntanlega átt við mig. Mér finnst ég vera lítið eldri en hún og hlusta því ekkert á þennan þvætting.

Í kvöld er þorrablót hjá bekknum hennar Lilju og sviðin bíða á borðinu eftir að verða soðin. Ef ég þekki þessa rollinga rétt þá verður eitthvað um samkvæmisleiki og ógeðsdrykki sem blandaðir eru af mkilli kostgæfni handa okkur foreldrunum. Það er bara gaman.

Stútungur er á Flateyri á laugardagskvöldið. Hver veit nema Vertinn setji slagbrandinn fyrir Kjallarann og skelli sér á Stútung og sletti svoldið úr klaufunum.

Spilavistin er í kvöld kl. 21:00. Vegleg verðlaun í boði að vanda.

Ekkert nýtt er að frétta af Þorrablótinu og Kútmaganum. Þið fáið að fylgjast með jafnóðum.

Njótum þess að vera til.


Andleysi

Óskaplega get ég verið andlaus stundum. Ég hef setið dágóða stund við tölvuna og rembst eins og rjúpan við staurinn við að upphugsa eitthvað viturlegt til að segja ykkur, en heilasellurnar virðast bara ekkert virka. Það er væntanlega vegna þess að nú er ég í óða önn að klára bókhaldsvinnuna fyrir virðisaukaskattsskilin á mánudag og það hreinlega þurrkar upp í mér heilann. Ég get ekki neitað því að mér er ekki mjög skemmt yfir þessari vinnu en ég er alltaf að reyna að vera jákvæð og líta björtum augum á tilveruna og verð að trúa því að þetta hafist í tíma.

Það að geta haft jákvæðni í farteskinu gerir lífið svo leikandi létt og allir vegir verða svo greiðfærir, hvernig sem viðrar. En til að geta verið jákvæður þarf maður vera í góðu jafnvægi og eiga ró innra með sér. Þegar ógnarmáttur áfengis nær tökum á fólki glatast þessi innri ró og reiði og pirringur nær tökum á sálinni sem gerir það að verkum að fólk breytist.  Lífið leiddi mig inn á þessa braut og þau spor sem ég steig með Bakkus mér við hlið voru óheillaspor, en samt reynsla sem ég bý að alla ævi. Öll reynsla sem við öðlumst, hvort sem hún er góð eða slæm, gerir okkur að þeim manneskjum sem við erum. Þetta er ekki flóknara en það. Það vill til að ég er enn jafn hrekkjótt, óþekk og stríðin og nýti hvert tækifæri til að slá um mig með hæfilega klúrum aulabröndurum sem yfirleitt engin hefur gaman af.  Ég tel það mikinn kost í fari fólks að hafa góðan húmor og ég hef þá trú að hláturinn lengi lífið. 

Ég hafði það af að skrifa grein um væntanlegt íbúaþing sem send var fréttablaðinu í dag. Hún birtist einhvern næstu daga í blaðinu. Það virðist hvergi vera friður vera fyrir málæðinu í mér.

Nú ætla ég að viðra mig örlítið fyrir svefninn. Ætli ég taki ekki á mig rögg og labbi til hennar Gunnu Jóns vinkonu minnar á Holtunum. Hún þykist vera að flytja í burtu í vor. Ég ætla að reyna að snúa ofan af henni og leiða henni fyrir sjónir hversu yndislegt er að búa hérna og að suður sé ekkert að sækja.

Læt þetta duga í bili enda dauðþreytt eftir daginn.

Heyrumst

 


« Fyrri síða

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Feb. 2007
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28      

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 635895

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband