Áramótagleði í Kjallaranum

Vertinn í Víkinni mun standa vaktina í kvöld ásamt vinnuhjúum og taka fagnandi á móti gestum sem líta við. Orð götunnar segir að menn ætli að fjölmenna og trúlega munu einhverjir taka í gítar og syngja gleðisöngva. Máninn mun án efa skína hátt á himni hrímfölur og grár enda glottir tungl og hrín við hrönn og hratt flýr stund og nýtt ár heilsar handan hornins.

Húsið opnar klukkan eitt og stendur fjörið fram til klukkan fjögur.


Blikar jólastjarna

Jólastjarnan blikaði skært yfir Bolungarvík í gærkvöldi og nótt og skin hennar lýsti upp Einarshúsið og allt nánasta umhverfi. Ástæðan var augljós því hljómsveitin " Malt og Appelsín" flutti jólatónlist af ýmsu tagi fyrir gesti og gangandi og kvöldið var frábærlega skemmtilegt. Einkar skemmtilegur hópur var samankominn í litla Kjallaranum og allir skemmtu sér hið besta. Það þótti unun að hlýða á þá félaga í hljómsveitinni hræra vöggu okkar hinna með vísnasöng enda var nóttin svo ágæt ein og í allri veröld ljósið skein en þó mest yfir Víkinni. Einnig kom fram í einum texta þeirra í viðlagi að:

 

LæknarÍ Bolungarvík er barnið fætt

í ástarviku ef vel er gætt.

Hafa englar um það rætt

á bæjarskrifstofunni.

Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.

 

Reikna ég fastlega með að þarna sé átt við barnið hans Jóa á Hanhóli sem fæddist í ástarvikunni og dafnar vel samkvæmt nýjustu fregnum. Þess var reyndar getið í framhjáhlaupi að:

 

Grímur með pípuhattFjármenn hrepptu fögnuð þann

sem Grímur óf og Grímur spann.

Lofa nú margir þursinn þann

sem lausnari heimsins væri.

Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.

 

 Ekki er úr vegi að geta þess að þrír læknar tilheyrðu þessari grúppu með einum eða öðrum hætti og því var öryggi allra gesta minna gulltryggt enda varð engum misdægurt á meðan hljómsveitin kirkjaði og söng. Lýður tjaldaði hljómfögrum barnalækni fram sem forsöngvara sem lét erindið um mömmu sem klæddi jólasveininn úr öllu nema skegginu hljóma undurblítt um salinn. Jólakveri var dreift á borðin svo gestir gætu sungið með og vel var tekið undir á köflum og hátíðarandi sveif yfir vötnum þó sér í lagi þegar versið eftir John Lennon og Yoko Ono birtist í íslenskri þýðingu og hljómaði svona að hluta til í gærkvöldi:

 

Malt og AppelsínNú eru jólin og mér líður vel

Hengingarólin á öðrum ég tel

Á morgun er messa sem ég nenni ekki í

svo verða menn hlessa og hneykslast á því.

En guð er svo góður og launþegar hans

kristinhátíðarsjóður kom mér til manns.

 

Malt og Appelsín er stórgóð jólablanda sem inniheldur gamalt vín á nýjum belgjum og er blandan í hárréttum hlutföllum við heildarumfang hljómsveitarinnar sem sló eftirminnilega í gegn á stóra sviðinu í Kjallaranum í nótt sem leið.

 

 

 


Minni Kvenna

Ó, þið yndislegu konur, hvar værum við aumir karlar án ykkar? Þið eruð forsendan fyrir gæfu okkar og ástæða þess að við njótum okkar svo vel sem raun ber vitni. Þið eigið skilið hrós og lof eða eins og stendur í hinu forna kvæði: Móðir, kona, meyja meðtak lof og prís, veskú plís. Það eru ekki litlar kröfur og væntingar sem þið þurfið að uppfylla.  Þið eigið að mennta ykkur og krækja í góðar stöður á vinnumarkaði , vinna fullan vinnudag og samt að eiga snyrtilegt heimili sem gljáir eins og þið væruð í fullu starfi sem húsmæður. - Þið eigið að krækja í góðan mann sem skaffar vel og hlúa að honum og fjölskyldunni í raðhúsi eða einbýlishúsi. Þið þurfið að lesa Séð og heyrt, Mannlíf, Nýtt líf og Vikuna til að fylgjast með svo og Gestgjafanum með öllum  góðu brauðréttunum fyrir saumklúbbinn. Kaupa Hús og Híbýli og horfa á Innlit /útlit, svo að þið fáið brilljant hugmyndir að nýjum lausnum. Svo verðið þið að hlusta á dægurmálaútvarpið og hafa skoðun á pólitík, fylgjast með fréttum, Kastljósi og Silfri Egils.  Þið þurfið að stunda líkamsrækt, jóga og sund, gera slökunaræfingar og grindarbotnsæfingar, boða hollan mat nóg af trefjum og kalki til að forðast beinþynningu. Þið eigið að leggja af, hætta að reykja, huga að umhverfinu, vernda náttúruna og gera safnhaug í garðinum, flokka sorpið, skola mjólkurfernur og geyma í poka,  að ekki sé minnst á álfabikarinn sem allar ábyrgar konur þekkja. Þið þurfið að lesa bæklinginn frá Hagkaup, Elko og Rúmfatalagernum og fylgjast með bestu tilboðunum, standa í biðröðinni í Bónus til að spara 20 krónur á tannkremstúpunni. Kaupa fisk í heildsölu, taka slátur og baka bollur til að eiga í kistunni ef það kæmu óvæntir gestir. Taka til í eldhússkápunum og setja allt í Tuppever dollur af réttri stærð og þurrka svo af með öllum flottu og dýru klútunum sem  þið keyptuð á heimakynningunni. Þið megið þrífa bílinn,  planta haustlaukunum, bera á sumarbústaðinn og vera i honum vegna þess að hann kostar svo mikið. Sinna börnunum, passa að þau mæti í spilatíma, fótbolta afmæli og tannréttingar og helst að fara reglulega í fjöruferðir, göngutúra eða í sund því ef fjölskyldan gerir ekki eitthvað saman fara börnin í hundana og lenda í dópi og rugli.  svo þarf að mæta á foreldrafundi, foreldrarölt og hjálpa krökkunum að selja klósettpappír til að komast á pollamótið. Þið berið hitann og þungan af því að rækta ættartengslin við foreldra, systkini, ömmur, afa, gamlar frænkur, börn, tengdabörn, barnabörn, stjúpbörnog fósturbörn , munið alla afmælisdaga, skirnardaga og brúðkaupsafmæli, þó enginn muni eftir ykkur. Þið hlúið að ástinni, rómatíkinni, kryddið tilveruna hugsið um að rækta sambandið við makann, t.d.. með þvi að eiga flotta samfellu og blúndubuxur og fara reglulega í vax og neglur. Þið yndislegu konur, sem alltaf setjið þarfir annarra ofar ykkar eigin þörfum, án ykkar værum við karlmennirnir handalausir, allslausir og vonlausir, núll og nix.Ykkur til heiðurs hefjum við glösin og segjum skál og stígum svo á stokk og syngjum Fósturlandsins Freyja

 

Þetta "Minni kvenna" flutti Einar Guðmundsson svo eftirminnilega á þorrablótinu í janúar sl. og lengi verður í minnum haft. Nýr karlmaður mun fara með minni okkar kvenna á þorrablótinu í næsta mánuði og það er tilhlökkunarefni að sjá hver mun feta í fótspor Einars.                       

               


Skammdegisgleði

Reynt að halda lagiSannkölluð skammdegisgleði mun ráða ríkjum í Kjallaranum á laugardagskvöldið 29. desember. Þá ætlar hin sívinsæla jólablanda " Malt og Appelsín "að kveðja árið með ljúfum jólatónum í bland við dash af kóki og kannski örfáum rúsínum til að fullkomna bragðið. Það eru þeir félagar Lýður læknir, Grímur bæjarstjóri og Benni sundþjálfari sem tilheyra þessari fyrirtaksblöndu einvala tónlistarmanna hér í Bolungarvík auk Halla tölvugúrús og lögguhéra. Er það sérstakt tilhlökkunarefni að fá að berja þessa kappa augum þegar árið er að enda og hlýða á þeirra eðalraddir hljóma undir bassa og gítarspili. Án efa munu englaraddir óma í bland við hörpuslátt í takt við þessa eðaldrengi og ég legg til að sem flestir mæti. Aðgangur er ókeypis og stuðið mun byrja upp úr kl. 22:00 og mun standa eins lengi og þurfa þykir en þó aldrei lengur en (jóla) lög kveða á um í landinu. Á myndinni hér til hliðar má sjá lækninn og bæjarstjórann syngja á stóra sviðinu í Kjallaranum á góðu kvöldi fyrr á árinu. Báðir héldu þeir þokkalegu lagi og þótti hljómfall þeirra félaga nokkuð gott.

Litla jólabarn

Litla jólabarn

Litla jólabarn


Gleðileg jól

jólabörnMig langar að óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Bestu þakkir fyrir þolinmæðina við lestur hugleiðinga minn hér á síðunni og vonandi hafið þið það sem allra best á hátíð ljóss og friðar. Ég sendi að gamni mynd af krökkunum mínum sem tekin var rétt í þessu. Andri er klæddur í kjól og hvítt enda á leið á vakt í lögreglunni. Við erum þó svo heppin að fá hann heim rétt áður en heilagleikinn skellur á í öllu sínu veldi og við verðum sameinuð á hátíðinni ásamt mömmu og pabba sem borða með okkur í kvöld. Allt er klárt, heimilið hreint og strokið og allir tilbúnir til að taka á móti jólunum og þetta verður jafn yndisleg stund og ætíð þegar fjölskyldan sameinast á jólahátíðinni.

Jólakertið

Ég man það fyrir mörgum liðnum árum,

er mamma kom með jólakertið inn,

ég hafði grátið, grátið beiskum tárum,

en gleymt er nú, hvað vakti harminn minn.

 

Þá sagði mamma, svona er guð þér góður

hann gaf þér jólin, sjáðu kertið þitt.

Hann elskar þig, þú átt hann fyrir bróður,

og ekki máttu gráta, barnið mitt.

 

Það varð svo bjart, ég brosti gegnum tárin,

er blessað jólaljósið við mér skein.

Og eftir mörgu, mörgu horfnu árin

er minning þessi ennþá ljúf og hrein.

 

Og jafnan eiga jólin töframáttinn,

er jólanóttin fyrsta í sér bar.

Þótt öldin nýja hafa annan háttinn,

er hjarta barnsins líkt og áður var.

 

Og jólaljósin ljóma í austur, vestur

og lýsa þeim, er vilja heyra og sjá,

til hans, er öllum reynist bróðir bestur

og börnin huggar bæði stór og smá.

 

Margrét Jónsdóttir


Barnapían og barnið

Bjarni og égTroðfullt var í Kjallaranum í nótt sem leið og þar kom saman æska Bolungarvíkur. Það var fallegur hópur samankominn sem við megum vera stolt af. Biggi Olgeirs hélt uppi þrumustuði ásamt sínu skylduliði og það var einstaklega gaman. Mikið var að gera og tíminn leið hratt og áður en varði var löngu komin háttatími fyrir ráðsetta Verta. Strákurinn sem eitt sinn var svo lítill og ég gætti eins og sjáaldur auga minna, er ég sinnti barnapíustarfi sem stelpa, mætti alla leið frá Noregi þar sem hann hefur verið búsettur undanfarin ár. Hann var orðin svo ógnarstór og náði alveg upp í rjáfur eins og sjá má á myndinni hér til hliðar og ég virtist ógnarsmá við hlið hans. Bjarna Heiðari hefur farnast vel og ég tel það að stórum hluta mér að þakka og þeim tíma sem ég kom að uppeldi hans og leiddi hann áfram til visku og þroska.

Hrikalega mikið fjör var þangað til einhverjir fór að hnoðast og hristast, nuddast og níðast, kalla og hrópa og brjóta og bramla. Allt virtist þó ætla að sleppa fyrir horn þangað til afar merkisgripur, forláta kompás,  úr Hafrúnu ís, sem strandaði við Stigahlíð og var í eigu Einars Guðfinnssonar, fór á hliðina. Vertinn greip um höfuðið og ákallaði skapara sinn og guð sinn því margir munir Einarshúss eru ómetanlegir og óbætanlegir og hafa þeir sem betur fer fengið að vera í friði til þessa. Vonandi verður þó hægt að laga gripinn. Hugmyndir hafa komið upp að annað hvort setja kompásinn í keðju eða gestina sem urðu valdir að óhappinu og mun ég íhuga það um jólin á hvern veginn það verður.

Skemmst er frá því að segja að Vertinn setti í brýrnar þegar atburðarrásin var komin í þennan farveg og breyttist í Grýlu um tíma. Leppalúði veitti henni innblástur ásamt Leiðindaskjóðu og jólakettinum og sópaði hún öllum gestunum út með vendi enda var kominn morgun og tími fyrir alla til að fara heim að sofa.


Lokahönd

Vertinn situr við kveðskap fyrir þorrablótið og það tekur vonandi enda innan skamms. Slík vinna tekur frá mér alla orku þennan dyntinn og hugurinn er því galtómur og lítið fer fyrir hugmyndaflugi til skiptanna til að skrifa um á þessa bloggsíðu af einhverju viti. Lítill tími vinnst til að gera hreint og þrífa allt í hólf og gólf og heimilið er ekki sett á hvolf til að minnast fæðingu frelsarans. Jóhannes í Bónus bakar fyrir mig smákökurnar núna eins og í fyrra enda er maðurinn sannkallaður bjargvættur jólanna. Konfektið kemur beint úr smiðju Nóa og Síríus enda besta konfekt sem völ er á svo allt verður þetta eins og blómstrið eina eins og ætíð. Jólin koma og þau fara eins og ætíð og stundin ætíð jafn hátíðleg.

Vertinum varð á að nefna það hvort ekki væri upplagt að fara til kirkju á aðfangadag en það hefur svosem ekki verið siður hjá okkur í gegnum árin heldur frekar undantekning. Það féll ekki í góðan jarðveg og ég er stöðugt minnt á messuna í fyrra þegar ég heimtaði að allir færu með mér í kirkju til að fá yfir mig anda jólanna beint í æð frá sóknarprestinum og Guði föður almáttugum. Það skipti engum togum að yfir mig sveif svo mikil sifja í messunni að ég steinsvaf mest allan tímann og missti því af flestu sem fram fór. Ég hafði skorðað mig upp við kirkjuvegginn og hraut víst í takti við blessunarorð kirkjunnar þjóns  og varpaði því vissum skugga á helgihald heimamanna ( eða svo er mér sagt). Yggld augu þeirra sem ég hafði með mér nauðuga viljuga til messu hvíldu þó á mér messuna út í gegn og trufluðu svefninn að hluta og gerðu mig órólega. Mér hefur verið tilkynnt að ég geti sofið ein og óstudd í Hólskirkju þessi jólin ef ég kæri mig um að hlusta á guðorðið þar og megi því hrjóta að vild yfir kirkjugestum og eyðileggja jólagleðina fyrir öllum hinum. Þau hin, ætla að vera heima!


Sumarblíða

Þegar þessi orð eru rituð er niðdimm nótt. Vertinn drollar frameftir við eitt og annað. Það er hreint ótrúlegt til þess að hugsa að núna klukkan tvö um nótt í desember skuli vera þvílík sumarblíða að ég get gengið í kringum húsið mitt á skyrtunni einni saman til að virða fyrir mér gluggaskreytingarnar og vindurinn er heitur og notalegur. Ég man bara ekki eftir öðru eins og stend alveg á gati. Ég heyrði bát fara á sjóinn og sá fyrir mér öldurnar bylgjast á haffletinum í kjölfarið og mér varð hugsað til blíðsumarsnátta. Ég fann angann af sumarblómum og ég sá Pera gamla fyrir mér við grindverkið að gefa hundinum mínum harðfisk. Allt svo raunverulegt en samt úr öllum takti við raunveruleikann. Raunveruleikinn er eitthvað svo óraunverulegur og ég hef á tilfinningunni að ég líði áfram í draumi..afskaplega góðum draumi sem hefur að geyma sól og vor.


Næsta síða »

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Des. 2007
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.8.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 635878

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband