Föndrað fyrir jólin

FöndurEitt af því sem bráð nauðsynlegt telst að gera fyrir jólin er að föndra og viðahafa annan myndarskap. Jólakort voru í miklu uppáhaldi listakvenna sem settust niður í erli dagsins í Einarshúsi og föndruðu lifandis býsn fyrir jólin. Glans og glimmer sáldraðist um allt hús eins og englaryk og englarnir flögruðu um með vængjaþyt og bros á vör. Jesúbarnið hjalaði í jötunni sinni á sumum glansmyndanna og vitringarnir þrír komu færandi hendi með gull, reykelsi og myrru og reykelsisangan lagði um Einarshúsið og glöggt mátti finna að hátíð ljóss og friðar var að ganga í garð. Bull, ergelsi og fyrra átti því ekki upp á pallborðið hjá þessum ungu konum á myndinni til hliðar en þær Þórunn, Elsa og Lilja voru niðursokknar í jólaföndur í dag.

Ólína Þorvarðar mun lesa upp úr Vestanvindum í hádeginu á fimmtudag yfir rjúkandi súpu og vonandi verða veðurguðirnir til friðs svo hún komist klakklaust Hlíðina. Gunnar Sigurðsson ætlar að grípa í jólabók í leiðinni og lesa fyrir okkur hin og þið eru hvött til að mæta.

Sr. Agnes og Jónas munu reka endahnútinn á upplestur úr jólabókum í hádeginu á föstudag og ég tel brýnt að mæta til að hlusta á prestinn og sýslumanninn hefja upp raust sína. Ekki veit ég hvort hægt verði að fá syndaaflausn í leiðinni hjá prestinum eða niðurfellingu sekta hjá sýslumanninum, annað eins hefur þó gerst í Einarshúsi gegnum árin og hvet ég sem flesta til að mæta í hádegissúpuna og hlusta á fyrrnefnda embættismenn svo hægt verði að taka á móti jólunum með hreint borð.

Klukkan þrjú á laugardag ætlar dæmalaust dúó sem skipað er engum öðrum en Ella Ketils og Hjöddu að mæta í Einarshús og syngja og spila jólalögin. Af því má engin maður missa en þetta telst góð upphitun fyrir Ella Ketils en hann er á leið til Kanarí í janúar og þar mun hann væntanlega troða upp á hverju kvöldi margar vikur í röð. Ætli Vertinn sjálf lesi ekki bráðskemmtilega jólasögu, af sinni einskæru hógværð og lítillæti, sem henni áskotnaðist nýverið. Eins og allir vita er títtnefndur Vert alls ekki fyrir það að koma fram eða láta bera á sér á einn eða annan hátt en mun þó gera þessa undantekningu í þetta sinn. Hver veit nema fleiri komi til með að láta ljós sitt skína á laugardaginn og þið fáið að vita að því jafnóðum.

Biggi Olgeirs ætlar svo að trylla lýðinn á laugardagskvöldið og allir mæta  eins og ætíð þegar Biggi treður upp. Kannski verða tilboð í kolageymslunni, hver veit.

Dúndurfréttir herma að fjör verði í Íþróttahúsinu Torfnesi og fregnir herma að Vertinn í Víkinni verði á svæðinu ásamt sínu skylduliði. Munið að kaupa miðana í tíma því bráðnauðsynlegt er að hlýða á þessa langbestu eftirhermuhljómsveit allra tíma.

Malt og Appelsín er afskaplega góð blanda og mun hún vera í réttum hlutföllum í Kjallaranum á laugardagskvöldið 29. desember. Þar munu læknirinn og bæjarstjórinn, sundþjálfarinn og einhverjir fleiri útvaldir stíga á stokk. Vonandi verður ekki svo kjaftfullt í Kjallaranum að Vertinn þurfi að vísa fólki frá eins og gert var við Jósep og Maríu í gistihúsinu í Betlehem hér forðum. Vonandi verður rúm fyrir alla í gleðihúsinu í Bolungarvík þetta kvöld.

Auðvita verður opið á nýársnótt...auðvita tökum við á móti nýju ári í húsinu sem skiptir okkur öll svo miklu máli....auðvita hittumst við hress og kát og fögnum komandi ári í húsinu sem ber svo mikla sögu harma og hamingju, sorgar og gleði og vona og væntinga....auðvita hittumst við í Einarshúsi...hvar annarsstaðar?


Taumlaust tjútt

Langt er um liðið frá síðustu færslu og mér finnst ég vera að svíkjast um en nóg er að sýsla þessa stundina. Segja má með sanni að tíminn sé fugl sem flýgur hratt og ég virðist stefna hraðbyri inn í framtíðina án þess að fá rönd við reist. Jólin verða komin áður en ég veit af og árið án efa gengið í aldanna skaut áður en ég get snúið mér við og nýtt ár með vonum og væntingum runnið upp og ég á eftir að gera ALLTCrying

Grenjandi rigningin lemur gluggarúðurnar af áfergju þegar þessi orð eru rituð og vindurinn æðir áfram í æsilegum leik við organdi veðurham. Veðurguðirnir virðast í ham þessa dagana og geta ekki með neinu móti gert upp við sig hvernig veður á að vera í það og það skiptið. Þó lét Vertinn ekki tíðarfarið stoppa sig að fara inn á Ísafjörð á jólaskemmtun nema í þriðja bekk MÍ en það var fjáröflun vegna utanlandsferðar krakkana sem er fyrirhuguð næsta sumar. Það var reglulega skemmtilegt og þau sungu eins og englar, spiluðu eins og ljós og allt var eins og blómstrið eina. Glímukappar sýnu nýjustu glímutökin og gerðu það með miklum ágætum. Um tíma hélt ég að ég væri orðin þátttakandi í bardaga gamalla tíma og taldi um stund að verið væri að berjast um athygli Vertsins í Víkinni en áttaði mig þó fljótlega á því að svo var ekki, heldur var hugurinn  farinn að reika full langt aftur í aldir og var hlaupinn um ævintýraheima fornra slóða. Trúlega ruglaði æðisgengin rigning og rjúkandi rokið mig því óhugur blundaði í mér vegna heimferðarinnar um Óshlíðina. Það kom reyndar á daginn að tvær aurskriður höfðu fallið á Eyrarhlíð og grjót og leðja lagði yfir veginn og út í sjó. Þráin eftir því að komast heim og þrjóskan var þó hræðslunni yfirsterkari og ókum við mæðgurnar yfir urð og grjót í grenjandi slagviðri og héldum í áttina heim. Keyrt var af festu veginn sem heldur litlu víkinni milli fjallanna í helgreypum. Óshólaviti hoppaði hæð sína af kæti þegar við gægðumst framhjá Sporhamri en þá vorum við úr allri hættu. Óróleikinn blundar þó enn innra með mér því húsbóndinn er veðurtepptur í höfuðstaðnum og sonurinn úti í veðurhamnum að aðstoða bæjarbúa í vonda veðrinu við eitt og annað. Hann verður þó vonandi ekki sendur á hlíðina í nótt og vonandi get ég sofið rótt.

Vertinn fór ásamt vinnuhjúum sínum á jólahlaðborð á hótelið á Ísafirði á laugardagskvöld og það var einstaklega gott að geta sest niður og látið aðra stjana við sig á alla lund. Vertinn klæddist einum glæsikjólnum enn sem keyptur var í Fríðu frænku og er aldagamall og keyptur úr dánarbúi glæsikonu. Eftir borðhaldið voru stuttu pilsin þó dregin fram og haldið var í Edinborgarhúsið og taumlaust var tjúttað fram á rauða nótt. Hljómsveit frá Flateyri spilaði fyrir dansi og þeir héldu virkilega  góðum takti og það voru svo sannarlega þreyttir fætur og lúnir sem skriðu heim um miðja nóttina eftir stífa dagskrá kvöldsins en mikið lifandis skelfing getur verið gaman að dansa.

Jólabingóið hjá Sjálfsbjörg á sunnudaginn heppnaðist vel í alla staði og húsið var fullt af fólki. Panellinn á veggjunum gliðnaði til að allir gætu komist fyrir og uppistöður sveigðust til hliðanna svo allir hefðu nægt pláss. Setið var í hverju skúmaskoti og spenningurinn skein af hverju andliti.

Þær fréttir berast innan að með ofsarokinu að húsbóndinn komi til með að standa vaktina á Ísafirði í nótt og sonurinn hér í Bolungarvík. Íbúar á norðanverðum Vestfjörðum eru því í góðum höndum og get ég því áhyggjulaus farið að sofa.

Góða nótt

 

 


Jólabingó Sjálfsbjargar

Jólabingó Sjálfsbjargar verður haldið í Einarshúsi á morgun og hefst það stundvíslega klukkan tvö. Þá ætla Björn og Ingi að standa vaktina ásamt Nikulási, Gunnari og Oddi og tel ég tilvalið að mæta og spila með því til mikils er að vinna. Hægt verður að kaupa kaffi og með því í hléi og því upplagt að mæta með fjölskylduna og eiga huggulega stund, skilja jólastressið eftir heima og slaka á eitt augnablik. Aðgangur er 500 krónur og rennur hann óskiptur til Sjálfsbjargar og þar veitir án efa ekki af aurunum til góðra verka.

Unnið er að konfektgerð af miklum krafti þessa dagana í húsi gleðinnar. Betukaffi verður í boði með heimagerðu konfekti og ég teldi upplagt að kíkja við og smakka. Elsa og Þórunn vinna að konfektgerðinni upp á kraft og standa sig með prýði enda harðduglegar ungar konur.

Eins og fyrr segir verður slagbrandinum skellt fyrir seinnipartinn í dag vegna jólagleði starfsmanna minna. Smá partý verður haldið heima fyrir herlegheitin og það er tilhlökkunarefni að fá gesti heim.

Jóladagskrá er í smíðum og þar verður í boði eitthvað hopp í hí sem ég segi ykkur frá síðar.

 

 


36 metrar á sek

Skiltið á Óshlíðinni sýndi 36 metra á sekúndu í kviðunum rétt í þessu. Vertinn varð að skjótast mót veðurhamnum til að útrétta í höfuðstaðnum og bitið var á jaxlinn að venju þegar haldið er á veginn í svona veðri. Það undirtók í öllu þegar Óshlíðin hló sínum háværa tryllingshlátri er hún espaði ólgandi dröfn til lags við sig. Leikar æstust er vindurinn náði hámarki sínu og  sjávarlöðrið fauk með tilþrifum upp hlíðarnar og Óshlíð skemmti sér. Verndarhendi var þó haldið yfir Vertinum í Víkinni að vanda og leiðin gekk áfallalaust.

Helga ValaHelga Vala las óaðfinnanlega úr jólabók í hádeginu og tel ég nokkuð víst að hún hafi ekki verið að lesa upp í fyrsta skipti. Hægt er að geta þess að konan er leikari að mennt og kann því eitt og annað fyrir sér á þessum sviðum. Áfram verður haldið með upplestur úr jólabókum fram að jólum og auglýst verður jafnóðum hverjir koma til með að lesa í það og það skiptið. Ólína mætir galvösk með vestanvindinum á fimmtudaginn kemur og les þá úr ljóðabókinni sinni yfir ilmandi súpu. Þetta virðist falla vel í mannskapinn að bjóða upp á slíkan menningarviðburð í hádeginu og afar gleðilegt að sjá hve margir hafa gefið sér tíma til að koma og njóta.

Tel ég tilhlýðilegt að geta þess að lokað verður í Einarshúsi á laugardagskvöldið eða á morgun. Ástæðan er sú að Vertinn bíður öllu sínu starfsfólki á jólahlaðborð á hótelið á Ísafirði enda á þetta frábæra starfsfólk mitt  svo sannarlega skilið að fara út að borða. Ung stúlka mun halda upp á afmælið sitt í Einarshúsi það sama kvöld svo þar verður líf og fjör engu að síður og margt um manninn.

 


Ólína Þorvarðar og Helga Vala lesa

Baldur les og Elín borðar brauðEnn á ný var boðið upp á upplestur úr bókum sem út koma fyrir jólin í Einarshúsi. Baldur Smári og Elín mættu galvösk í kjúklingasúpu í hádeginu í dag og einstaklega gaman var að hlýða á lesturinn. Stundin var eitthvað svo notaleg. Baldur las úr bók Einars Más sem ber heitið Rimlar hugans og fjallar ma. um áfengisneyslu rithöfundarins og ferðina inn á Vog. Hann lýsir ástandi álkóhólista svo einstaklega vel og flestir þeir sem hafa átt við áfengis vandamál að strýða finna sig í hverju orði og hverri setningu. Oft hef ég velt fyrir mér þeim einkennum alkóhólisma að kenna alltaf einhverjum öðrum um eigin ófarir og sjá ekki bjálkann í eigin auga fyrir flísinni í auga náungans. Sumir hugsa reyndar þannig þótt þeir bragði sjaldan eða aldrei áfengi og sökkva sér dýpra og dýpra ofan í eigin vorkunnsemi og ólund yfir því hvað allir aðrir en þeir sjálfir eru ómögulegir. Þeir hinir sömu ættu kannski að líta í eigin barm af og til, það myndi án efa létta þeim lífið.

Ólína Þorvarðar og Helga Vala lesa í hádeginu á morgun, föstudag. Þá verður gúllassúpa á boðstólnum og vonandi getum við átt saman notalega stund. Vonandi blæs Kári kuldaboli ekki með sama offorsi og hann gerði í nótt. Vertinn í Víkinni var ræst út kl. 6 í morgun vegna þess að gluggi í Einarshúsi hafði fokið upp og fleira lauslegt var að fjúka. Vökul augu Bolvíkinga vaka yfir þessu merka húsi og passa að ekkert ill hendi það eða skaði.

Ég fæ þó vonandi að sofa á mínu græna eyra í nótt þvi húsbóndinn rennur brátt í hlað frá Reykjavík með soninn og tengdadótturina meðferðis. Gott verður að fá hópinn minn í öruggt skjól heim í heiðardalinn þegar vindur blæs og sjórinn er úfinn.

Mikið hlakka ég til þess þegar ég hef alla mína hjá mér ..........þá eru jólin.


Myndasería

des VII 136Tel ég nú tíma kominn til að birta myndasyrpu af nýafstöðnu jólahlaðborði. Þorsteinn Haukur myndaði mann og annan í gríð og erg og notaði hann þrælflotta myndavél. Stelpurnar á myndinni hér til hliðar eru auðvita langflottastar og bera af enda mikil dásemdarljós og virkilega frambærilegir vertar. Það örlar þó örlítið á þreytu eftir annasaman dag en þær létu það sig þó ekki á sig fá og dönsuðu alla nóttina og dilluðu sér taktfast við hljómfall þeirra Benna og Halla.

Heimsins besta kaffi

kaffibollinnNánast þori ég að fullyrða hvergi er hægt að fá betra kaffi en einmitt í Einarshúsi eins og sjá má á myndinni hér til hliðar. Bragðaðist þessi kaffibolli sem yljaði Vertinum í Víkinni  með miklum ágætum og seiðandi og sjóðheit kaffiblandan rann afskaplega ljúflega niður og veitti yl í kroppinn og vellíðan hríslaðist um allan líkamann. Rjóminn bráðnaði í munninum og súkkulaðið veitti þvílíkan unað og alsælu. Ég mæli með því að þið kíkið við og skellið ykkur á einn bolla á aðventunni og njótið bragðsins út í ystu æsar...það gæti svo sannarlega borgað sig.....sjáumst.

 


Upplestur úr jólabókaflóðinu

Nú verður bryddað upp á þeirri nýung að fá valinkunna andans menn til að mæta í hádeginu í Einarshúsið til að lesa upp úr jólabókunum í bland við kveðskap og rímur af flestu tagi. Halda þarf menningu staðarins á lofti og er þetta að mati Vertsins í Víkinni góð leið til þess að fá fólk til að koma saman og njóta þess að vera til. Ilmandi súpa mun að sjálfsögðu vera á boðstólnum að vanda og ekkert sparað í hráefni og öðrum kostnaði sem fylgir því að búa til súpu af bestu gerð.

Grímur Bæjarstjóri og Lýður læknir munu mæta galvaskir á morgun, miðvikudag og upphefja raust sína. Baldur Smári og Elín Jónsdóttir eru miklir bókaormar og ætla að leyfa okkur hinum að njóta upplestrar á fimmtudaginn í hádeginu. Helga Vala og Ólína Þorvarðar koma síðan á föstudag og þá munu lognið blása blíðlega að vestan því Ólína ætlar að lesa upp úr ljóðabók sinni sem ber heitið Vestanvindar.

Tel ég þó tryggara að hafa það í huga ef menn eru heilsulausir og veikir fyrir hjarta að mæta frekar á morgun því þá verður læknirinn til taks til að grípa inn í ef hlustendur fara að finna fyrir krankleika. Lýður er víst snöggur að bregða fyrir sig allskyns lækningamætti og handayfirlagningu og mun án efa leggja menn í læsta hliðarlegu ef á þarf að halda. Vertinn í Víkinni firrar sig þó allri ábyrgð á læknamistökum af öllu tagi sem kunna að koma upp og lætur sér í léttu rúmi liggja hverskyns óheppileg sjúkdómstilfelli sem geta komið upp í framhaldinu.


Súpa og brauð í hádeginu

Á aðventunni verður súpa og brauð í boði í Einarshúsinu við Hafnargötuna og ilmurinn er svo lokkandi.  Gunna mun án efa mæta á nýju skónum og Siggi á síðu buxunum sínum því nú eru að koma jól. Ekki get ég lofað því að Solla mæti í fagnaðinn á bláa kjólnum en aldrei er þó að vita. Eitt er þó öruggt að opið verður frá 11 til 23 alla virka daga fram til jóla og jólaandinn mun svífa yfir vötnum. Öllum er velkomið að kíkja inn og ylja sér við heitt súkkulaði og trúlega verður hægt að fá eitthvað með því. Upplestur á jólabókum mun halda áfram endrum og eins og fer það eftir skapgerð Vertsins í það og það skiptið hverjir koma til með að lesa.

 


Ræðan mín

Ágætu kirkjugestir. 

Enn eina ferðina hefur sólin tekið á það ráð að fela sig á bak við fjöllin og í auðmýkt sinni hleypt skammdeginu að.  Það er svo sem engin nýlunda fyrir okkur að sjá ekki sólina þennan hluta úr árinu, við sem hér búum höfum aðlagast þessum aðstæðum og tökum þeim með æðruleysi.  Mörgum líður vel í rökkrinu en aðrir eiga sínar erfiðu stundir þegar skammdegið skellur á.  Ljósin sem lýsa upp húsin okkar og bæinn um þessar mundir eru kærkomin innlegg í tilveruna þessa stundina og  létta mörgum lífið, ekki síst börnunum sem bíða óþreyjufull eftir jólunum. 

Ég á bara góðar minningar frá jólunum í minni bernsku.  Þau voru ósköp hefðbundin, mamma bakaði smákökusortir í stórum stíl, enda sérlega myndarleg húsmóðir. Hún sá um að heimilið væri hreint og strokið og síðast en ekki síst sá hún til þess að við systkinin værum sómasamlega klædd.  Sérstaklega eru mér minnisstæðir bláir kjólar sem hún heklaði á okkur systurnar, mig og Auði, Í kjólunum bókstaflega stirndi á þessar hugumstóru systur sem ætluðu að sigra heiminn þegar þær yrðu stórar. Ég á kjólinn minn enn þann dag í dag og er hann mér afar kær enda afskaplega góðar minningar tengdar honum.  Það er nú einu sinni svo að minningarnar sem við eigum í hugskoti okkar, hvort sem þær eru góðar eða slæmar, eru eitt það dýrmætasta sem nokkur maður á.  Ég sé það alltaf betur eftir því sem ég eldist. Pabbi minn sótti björg í bú, því ekkert mátti skorta á heimilinu um jólin og ekki var neitt til sparað hvorki í mat né drykk yfir hátíðarnar.  Reyndar var alla tíð lagt mikið upp úr því að nægur matur væri til á heimilinu, enda er hann pabbi mikill matmaður sem vill fá gott að borða í hvert mál, því er hann mjög lánsamur að eiga konu sem hefur yndi af eldamennsku. Hann má trúlega þakka sínum sæla fyrir það að vera ekki að staðaldri í fæði hjá mér.  Pabbi smíðaði stóra jólastjörnu úr tré sem hengd var framan á húsið okkar og þegar ljósin voru tendruð á henni fannst mér ég búa í fallegasta húsinu í bænum. 

Litlu jólin í skólanum voru alltaf jafn hátíðleg og spiluðu stórt hlutverk í lífi okkar krakkana þá, líkt og nú.  Segja má að hún Helga Svana hafi lesið inn jólin, því þegar hún las fyrir okkur jólaævintýrið á litlu jólunum varð allt svo hátíðlegt og einhver óútskýranlegur friður færðist yfir skólastofuna, það var meira segja svo að bekkjarbræður mínir gátu verið til friðs, rétt þetta augnablik.   Jólaævintýri Helgu Svönu urðu svo aftur ljóslifandi þegar ég fór að lesa þau fyrir börnin mín nokkrum árum seinna.  Lifnaði þá barnið í brjósti mér á ný, þegar ég sá brosin og eftirvæntinguna í andlitum krakkanna minna þegar jólin nálguðust.  Það er undursamlegt að geta fundið barnið í sjálfum sér í gegnum sín eigin börn.   

En blessuð börnin eldast víst og þroskast, verða fullorðin og fljúga úr hreiðrinu eitt af öðru.  Nú er svo komið að sonur minn er fluttur að heiman og verður líklega ekki hjá mömmu sinni um jólin í fyrsta sinn.  Hans atvinna er þess eðlis að hann verður að vinna þessa hátíðisdaga og kemst því ekki heim. Það vill til að ég á því láni að fagna að eiga tvær dætur sem eru afskaplega vel af Guði gerðar og hafa ekki yfirgefið hreiðrið ennþá. Þetta verða engu að síður skrýtin jól, því ég er ekki búin undir það að hafa allan krakkaskarann minn ekki hjá mér á slíkri stundu en við sættum okkur við það og tökum því með æðruleysi. Það verður vel að honum hlúð þar sem hann dvelur og ég held mín jól í faðmi fjölskyldunnar minnar þótt einn vanti í hópinn. Það verður líka dýrmæt minning í hugskoti mínu þegar ég lít yfir farinn veg. 

Alla tíð frá því að ég man eftir mér og fram á fullorðins ár bað ég bænirnar mínar, þar sem ég kallaði á Jesú Krist og bauð honum að koma að rúminu mínu og geyma mig í faðmi sér.  Einhverra hluta vegna fór ég með þessar bænir mínar æ sjaldnar eftir að ég varð fullorðin og áður en ég vissi af höfðu þær nánast máðst úr huga mér.  Þær höfðu gleymst í amstri hversdagsleikans. Núna hef ég þurft að leita þær uppi að nýju og fer með þær þegar mig vantar innri styrk og hef ég sett mér það markmið að gera þær aftur að hluta að lífi mínu.  Ég var nefnilega komin í þrot. Ljósið sem ég bað um þegar ég var lítil stelpa, að fengi að loga við rúmið mitt og hafa þar sess og sæti, var farið að dofna og sást aðeins sem örlítil skíma þegar ég kafaði í kytrur sálarinnar.  Ég hafði misst mína innri ró og í staðinn var einhver ógnarmáttur búin að búa um sig í hjarta mínu sem gerði það að verkum að ég var ekki orðin sama manneskja og ég var og vildi vera. Ég var nánast hætt að koma auga á fegurðina í kringum mig, fegurðina í fjölskyldunni minni, fegurðina í fólkinu sem hér býr og ljómann í lífinu sjálfu.   

Það er mikil mildi að ég skilda átta mig á því að ég hafði steytt á skeri og ég komst ekki þaðan hjálparlaust.  Ég hafði tapað orrustunni við þennan ógnarmátt sem hafði stjórnað lífi mínu alltof lengi og ég varð að játa mig sigraða. Það var erfitt, en hver segir að lífið eigi alltaf að vera auðvelt. 

Þau spor sem ég nýlega steig er ég gekk inn á Sjúkrahúsið Vog til að leita mér lækninga á mínum fíkn sjúkdómi eru trúlega þau mestu heillaspor sem ég hef stigið um ævina.  Mér finnst lífið nú þegar farið að snúast á sveif með mér. Þar dvaldi ég m.a. með fólki, sem átti ekkert, fólki sem var búið að missa allt, nema vonina um að geta lifað eðlilegu lífi með þessum sjúkdómi og trúna á æðri mátt.  Það var mér ómetanleg lífsreynsla að fá að upplifa slíkt og minningin er afar dýrmæt.  

Aðventan er sá tími þegar síðfellt fleiri jólaljós lýsa upp það myrkur sem ríkir á norðlægum slóðum á þessum árstíma.  Boðskapur jólanna um Jesú barnið sem fæddist í Betlehem og boðaði kærleika og frið okkur til handa, færir mér og öðrum styrk til að takast á við hið daglega líf og öðlast trú á tilveruna. Hér í Bolungarvík er umhverfi hins daglega lífs oft með öðrum hætti heldur en hjá höfuðborgarbúanum.  Á jólaföstunni eru oft válynd veður.  Það stórbrotna umhverfi sem við búum við gerir það að verkum að oft er erfitt að komast á milli staða, sérstaklega ef mikið hefur snjóað eða illviðri geysa.  Þetta gerir þó þennan árstíma eftirminnilegan og ekki eru síður ljúfar jólaminningar frá þeim hátíðisdögum þegar rafmagnið hefur farið af,  og illfært hefur orðið um bæinn.   Þrátt fyrir misjöfn veður endurheimta Bolvíkingar á þessum tíma þá sem dvalið hafa langdvölum við nám eða störf fjarri sínum heimahögum.  Þá  sjáum við aftur þessum andlitum bregða fyrir í skini jólaljósanna, þegar sameinaðar fjölskyldur fara í jólaboð, til kirkju eða heimsækja leiði látinna ættingja í kirkjugarðinum.   Þessi tími er einmitt best til þess fallinn að hlúa að þeim sem manni þykir vænt um, treysta fjölskylduböndin og njóta samvistanna hvert við annað.  Það er jú það sem mestu máli skiptir. 

Að endingu vona ég að við getum öll fundið sanna jólagleði og innri frið í hjörtum okkar og ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla. 

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir

 

Flutt á Aðventukvöldi í Hólskirkju sunnudaginn 10. desember 2006


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Des. 2007
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband