Rafmagnað andrúmsloft

Andrúmsloftið var rafmagnað er Þórunn fékk þær fréttir að pabbi hennar hefði ekið á loftlínu sem bar með sér 30.000 volta rafstraum. Hárrétt viðbrögð bóndans í Enniskoti gerðu það að verkum að hann komst heill á húfi frá þessari vá en tvö hross féllu í valinn. Enginn reiknar með því að slíkar línur liggi í þessari hæð og ekki er með nokkru móti hægt að varast slíkt í hríðarbyl um hávetur. Ekki hefði verið spurt að leikslokum ef hann hefði ekki brugðist við með þessum hætti og við erum þakklát að hafa karlinn heilan á húfi.


mbl.is Tvö hross drápust þegar dráttarvél lenti á raflínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reiðtúrinn

Lilja á BráFarið var í fyrsta reiðtúr ársins í gær á gæðahrossunum okkar og brokkuðu þeir Brá, Blesi og Tenór með knapa sína með stolti. Þetta eru hreint æðislegir hestar sem fara með okkur eins og hefðarmeyjar. Blesi er tryggur og traustur og ber Vertinn með varúð leiðar sinnar og fetar ljúft og létt áfram veginn. Tenór er vel taminn og hlýðir Elsu, eiganda sínum, í hvívetna og bar hann hana tignarlega um sveitina. Félagi þeirra úr hesthúsunum fékk að fljóta með og bauð Úði Þórunni sæti og brokkaði með reisn okkur við hlið.  Lilja sat Brá út í reiðtúrinn og eins og sjá má á myndinni tekur stelpan sig vel út á þessari moldóttu einstaklega þýðu sóma hryssu. Hvíta snjóbreiðan sem umlukti Víkina lísti upp umhverfið og það gustaði um knapana er þeir þustu um Syðridalinn og þessi ferð toppaði svo sannarlega daginn.


Gleðilegt nýtt ár !

Nýtt ár hefur litið dagsins ljós með miklar vonir og væntingar innanborðs. Ég veit að árið verður viðburðaríkt og mikið tilhlökkunarefni að takast á við verkefni sem framundan eru. Undirbúningur fyrir þorrablótið mun taka allan minn tíma næstu vikurnar og það verður bara skemmtilegt að takast á við það verk. Strax í næsta mánuði mun ég bæta á mig meiri vinnu, því þá helli ég mér út í brudkaup.is af alvöru og vonandi stend ég undir þeim væntingum sem gerðar eru til mín þar. Mikið er lagt undir til að sá vefur nái að dafna og vaxa og með góðra manna hjálp skapast hálft starf í bæjarfélaginu vegna þessa sem hlýtur að teljast gott fyrir bæinn því hvert eitt starf skiptir miklu máli.

Ferming Lilju er svo í vor og það á eftir að renna ljúft og verða skemmtilegt. Andri og Þórunn útskrifast með sumrinu og munu þau án efa bera stúdentahúfurnar sínar með bros á vör. Andri ætlar sér að halda áfram flugnámi sínu og stefna þau skötuhjú á brottflutning til framandi landa á þessu ári því Andri ætlar sér að ná sér í réttindi atvinnuflugmanns svo hann geti hæglega flogið með mömmu sína í helstu tískuborgir veraldar. Elsa námshestur stefnir á að ljúka sínu stúdentsnámi fyrir næstu jól og ef henni tekst það eignast ég þrjá stúdenta á árinu og eitt fermingarbarn og er það mikið ríkidæmi að eiga slíkan fjársjóð.

NokkviLögregluhundur bíður handan við hornið en enginn slíkur er hér á Vestfjörðum síðan Dofri sagði starfi sinu lausu. Dofri er reyndar nátengdur inn í fjölskylduna því hann er sonur gæðahundsins Nökkva sem við áttum til margra ára en hann gegndi starfi lögregluhunds, snjófljóðahunds, vatnaleitarhunds en einnig vann hann að kvikmyndaleik um tíma. Hann lék eitt aðalhlutverk í myndinni ''Í faðmi hafsins" sem runnin var undan rifjum Lýðs læknis og þótti stórgóð á alla kanta og kom hann einnig að myndinni Nóa Albínóa en þar brá honum einungis rétt fyrir eitt augnablik. Í faðmi hafsins lék hann fyrirboða sem breyttist úr sel í hund og komu einstakir leiklistarhæfileikar hans berlega í ljós í myndinni enda var Nökkvi virkilega vel alinn hundur og gerði það sem fyrir hann var lagt af þolinmæði og festu. Nökkvi var alveg frábær skepna en hann var Labrador og alveg einstakur, geðgóður og gæðalegur. Nokkuð ljóst þykir að enginn getur komið í hans stað en sá hundur sem krafsar nú í hurðina hjá okkur verður vonandi blíður og góður eins og hann. Á myndinni hér til hliðar má sá Nökkva "leikara" sminkaðan og flottan í selslíki í myndinni Í faðmi hafsins. Mikil ábyrgð fylgir því að fá sér hund en fjölskyldan er reiðubúin að taka þessum nýja fjölskyldumeðlim, sem kemur til með að sinna mikilvægum störfum innan lögreglunnar, fagnandi.

Aðkoma mín að bæjarstjórnarmálum mun taka einhverjum breytingum á þessu nýja ári enda tími til slíkra verkefna af skornum skammti en ákvörðun þess efnis hefur ekki verið formlega tekin en ákvörðun liggur fyrir innra með mér og henni verður ekki breytt úr þessu.

Hestarnir verða á sínum stað en þeir eru nú komnir í hús og búið að járna og allt klárt til útreiða. Mitt verkefni fram á vorið er að fara í hesthúsin og moka skít, þegar ég er vöknuð og búin að nudda stírurnar úr augunum. Ég er fegin að hafa það verk fyrir höndum og vona að ég verði dugleg að fara í útreiðatúra á þessu nýja ári sem nú hefur litið dagsins ljós.

Áfram mun Vertinn blogga á ævintýralega hátt um það sem verður á vegi hennar og áfram mun Einarshús skipa stóran sess í skrifum títtnefnds Verts og það sem þar gerist. Myndir munu áfram prýða síðuna fyrir lesendur til að njóta og gleðjast yfir. Víkari.is verður á sínum stað öllum þeim til handa sem gaman hafa af jákvæðum og skemmtilegum fréttum frá Bolungarvík

Fyrir utan allt hitt sem ég ætla að gera á þessu nýja ári verður eitt helsta verkefni mitt að sjálfsögðu að hanga edrú allar stundir, alla daga, allan ársins hring og vonandi ber ég gæfu til að standast þær freistingar sem liggja hér og þar og stundum allstaðar og bíða færis að slá mig út af laginu. Ég mun standast Bakkus því annað er óásættanlegur ósigur að mínu mati og ég er staðráðin í að vinna bara  sigra á þessu herrans ári sem gengið er í garð.

Ég óska ykkur að lokum gæfu og gengis á árinu sem nú er runnið upp


« Fyrri síða

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Jan. 2008
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband