Í Bolungarvíkinni er björgulegt lífið.

Svona hljóðar upphafsstefið í Bolungarvíkurbrag eftir Gísla Ólafsson úr Skagafirði sem ortur var árið 1916. Bragurinn er í 17 erindum en oftast eru bara sungin fyrstu tvö erindin.  Allir Bolvíkingar geta tekið höndum saman og sungið þessi erindi sem einn maður og þá skyggir ekkert á samheldni bæjarbúa, allir halda lagi og dilla sér með í góðum takti.  Segja má að þessi söngur sé okkar sameiningartákn og þegar við kyrjum hann saman á góðri stundu, fyllumst við stolti yfir því að vera Bolvíkingar. 

Þessi þjóðsöngur okkar er sunginn af miklum eldmóði á Þorrablóti hér í Bolungarvík sem annálað er fyrir sérstöðu sína og hefðir sem þar hafa ríkt.  Þar mæta konur í Íslenskum þjóðbúningi og karlar skarta í auknu mæli þjóðbúningum líka. Þar bjóða konurnar sínum ekta mönnum til blóts og gera vel við þá í mat og drykk.  Skemmtinefnd stórskemmtilegra kvenna halda úti skemmtidagskrá meðan á borðhaldi stendur og gera góðlátlegt grín að bæjarbúum.  Skemmst er frá því að segja að ég vil halda í þær hefðir sem ríkja á Þorrabótinu og vil ekki raska þeirri sérstöðu sem blótið hefur, en það er nú haldið 62. sinn og hefur alltaf verið með svipuðu sniði.  Þorrablótið er alltaf haldið fyrsta laugardag í Þorra.

Ég ætla að bjóða mínum bónda á blótið líkt og ég hef gert til margra ára. Við hjónin sitjum alltaf á sama stað og borðum úr sama troginu,  þrælgóðan þorramat, með sömu trogfélögunum og eigum alltaf jafn skemmtilega kvöldstund einu sinni á ári.  Engu má breyta og allt verður að vera eins.  Það er gott að geta gengið að einhverju vísu. Ekki spillir svo að geta dansað vals og ræl við hann Óskar á ballinu á eftir, en það hef ég gert á hverju einasta ári síðan ég fór að fara á blót enda er hann stórgóður dansari sem fær mig bókstaflega til að svifa um dansgólfið.  Reyndar eru nokkrir liðtækir dansherrar sem ég hef þegar sett á danslistann minn fyrir þetta Þorrablót.

Eitt er þó stundum breytilegt frá ári til árs en það eru sjálfir þjóðbúningarnir sem ýmist þrengjast eða víkka.  Það er þó algengara að þeir þrengist með árunum enda eru þeir flestir saumaðir úr mjög rakadrægu efni sem gerir það að verkum að þeir skreppa saman við geymslu og verða þröngir og jafnvel hætta að hylja helstu fellingarnar og einn og einn fitukeppur á í vandræðum með að koma sér fyrir innan þjóðbúninga klæðanna.  Ég þarf þó ekki að hafa áhyggjur af því í ár, hef lagt töluvert af á undanförnum mánuðum.  Kílóin farin að fjúkja óumbeðin og stundum hef ég af því áhyggjur að ég verði svo horuð að ég viti ekki hvort mér sé illt í maganum eða bakinu ef ég fæ verk um mig miðja. En nóg um það.

 Dagurinn í dag við nokkuð annasamur og viðburðaríkur.  Ég vaknaði eldhress og uppfull að sjálfsánægju yfir því að vera loksins farin að blogga.  Er þakklát fyrir viðbrögðin sem ég hef fengið við þessu uppátæki mínu.  Hélt áfram að vinna bókhaldið fyrir hádegi og er bara komin vel á veg.  Hrönn las ekkert upp úr biblíunni sinni í morgun en hún er oft niðursokkin í lestur bæklings sem borinn var í hús fyrir skemmstu en upp úr honum er hægt að panta ótrúlegustu hluti sem eru bæði gagnlegir og bráðnauðsynlegir hverum manni.  Þar er m.a. hægt að panta allt frá unaðargeli fyrir konur sem vilja betra kynlíf upp í margnota ryksugupoka sem passar í allar ryksugur og allt þar á milli.  Þar sem bóndinn á afmæli á föstudaginn fór ég að glugga í þennan pésa og velti fyrir mér hvort ég ætti að gefa honum BANDEX úthaldskrem fyrir karlmenn, en rak þá augun í falleg og viðkunnanleg þokugleraugu sem þykja bráðnauðsynleg í slæmu skyggni.  Ætli ég panti þau ekki á morgun.

Í hádeginu fór ég síðan inn í hesthús að gefa skepnunum, en við mæðgurnar eigum allar hesta og þeim þarf að sinna.  Það er mjög gefandi að sinna skepnum og merkilega gaman að moka skít.  Ég hef reyndar ekki farið á bak síðan um jólin og þarf að fara að vera duglegri við að fara í útreiðatúra.

 Ég fór síðan á fund í stýrihópnum sem vinnur að undirbúningi vegna íbúaþingsins og heldur sú vinna áfram.

Ég var með kvöldmat fyrir Lion menn en þeir funda einu sinni í mánuði og borða hjá mér.  Í dag gekk allt á afturfótunum í matseldinni.  Kjötið skrapp svo saman við suðuna að ég fékk hálfgert áfall, súpan brann við, steikarpannan gaf upp öndina og sósan hljóp öll í kekki.  Ef það hefði nú verið allt og sumt þá hefði nú allt svosem verið í lukkunnar velstandi en  á ögurstundu sló öllu rafmagni út í Einarshúsinu og leit út fyrir að blessaðir karlarnir mínir fengu ekkert að borða. Þeir sátu samt svo ljúfir og góðir við kertaljós og töluðu saman í hálfum hljóðum og tóku þessum aðstæðum með stóískri ró.  Á meðan fóru rafvirkjar og orkubúsmenn hamförum við að koma rafmagninu á og viti menn, það varð ljós og meðlimir Lion klúbbs Bolungarvíkur fengu sinn mat og fóru vonandi saddir og sælir heim.

 

Læt þetta duga í bili. Þetta var þrátt fyrir allt góður dagur og ég hlakka til þess næsta. 


Einu sinni er allt fyrst.

Þar sannast máltækið að einu sinni sé allt fyrst, því nú hefur Vertinn í Víkinni gripið til þess ráðs að fara að blogga.  Ekki veit ég hvort það verður til frambúðar en þetta er þó byrjunin á vonandi farsælu og langlífu bloggi.

Ætla ég hér á þessari síðu að fjalla um hugarefni mín frá degi til dags og færa hugsanir mínar í letur. Sumt mun trúlega virðast ómerkilegra en annað og verður hver og einn að meta það hversu áhugavert umræðuefnið er hverju sinni.

Umfjöllun um Kjallarann í Einarshúsi mun sjálfsagt taka meira pláss en minna hér á þessari síðu en ég er Vert á þeirri ágætu krá og stýri þar öllu með styrkri hendi.  Hér mun ég segja frá því helsta sem þar gerist og auglýsa þær uppákomur sem verða haldnar í Kjallaranum jafnóðum.

Þar sem ég er bæjarfulltrúi í hlutastarfi mun ég trúlega eitthvað koma inn á bæjarmálin ef ég tel ástæðu vera til og tjá mig um lífið hér í Víkinni eftir þörfum.

Einarshúsið

Kjallarinn er krá með sjómannaívafi.  Þar hanga á veggjum skipsstýri og luktir auk ýmissa muna sem tengjast sjómennsku. Stórt stýri úr skútu sem strandaði á Mýrunum skipar þar stóran sess en talið er að þetta sé stýrið úr Pourquoi pas? og held ég þeirri sögu með stolti á lofti.  Kompásar og átttantur, bjarghringir og skipsskrúfur sóma sér vel í Kjallaranum meðal annarra merkis muna en þessir hlutir eru stór þáttur í því að skapa þá stemningu sem þar ríkir á góðum stundum.  Ylurinn frá kamínunni yljar svo gestum staðarins svo um munar og er það sérstaklega notalegt á vetrarkvöldum að sitja við eldinn og njóta loganna frá kamínunni.  Reykingar hafa aldrei verið leyfðar í Kjallaranum og hefur það ekki komið að sök, þvert á móti hafa gestir mínir verið ánægðir með þá ófrávíkjanlegu reglu.

Fastir liðir

Ég hef reynt að brydda upp á ýmsum uppákomum til að laða til mín gesti.  Nú á föstudagskvöldið 19. janúar, á sjálfan bóndadaginn, hefst spilavistin að nýju á nýju ári og bind ég vonir við að þar verði húsfyllir og rífandi þátttaka. Vegleg verðlaun eru í boði eins og ætíð.  Spilað verður í Péturskaffi, sem er á ''efri hæð Kjallarans'' eins og gárungar bæjarins eru farnir að kalla þennan stórglæsilega sal sem nýverið var tekinn í notkun, en þar var ávallt rekin verslun á árum áður.

Kjallarakeppnin er einnig fastur liður á dagskránni og hefur verið haldin mánaðarlega um nokkurt skeið.  Hún fer þannig fram að tveir keppendur skipa hvert lið og svara þrjátíu spurningum skriflega og vinnur það lið sem getur svarað flestum spurningum rétt til veglegra verðlauna. Þessi keppni hefur verið vel sótt og hafa fjölmargir verið spyrlar, allt frá bæjarstjóranum hér í Bolungarvík upp í saklausa sveitadrengi frá Ögri. Ómar Már Jónsson sveitastjóri Súðavíkurhrepps verður næsti spyrill.  Sigurvegarar síðustu keppni voru Kristinn H. Gunnarsson og Ingibjörg Vagnsdóttir. Ég fjalla um Kjallarakeppnina nánar þegar nær dregur. 

Sagnakvöld hefur verið haldið einu sinni og hef ég mikinn áhuga á að halda það aftur og gera það að föstum lið í dagskrá Kjallarans.  Hef ég lagt drög að því að fá margrómaða Drangabræður til að segja sögur bæði af sjálfum sér og öðrum. Þeir bræður eru miklir sagnamenn og segja frá af mikilli snilld og kunna svo sannarlega að segja krassandi  sögur, sem án efa eru allar dagsannar.  Þeim er mikið í mun að fá að segja sögur af draugum og forynjum þegar þeir koma vestur . Ég hlakka mikið til að fá að taka á móti þeim Guðjóni og Sveini frá Dröngum. Finnbogi Bernódusson var síðasti sagnameistari Kjallarans og menn vita að hjá honum koma menn ekki að tómum kofanum þegar sögur eru annars vegar. 

Almennt um mig

Annars fór ég á bæjarráðsfund í morgun eftir langt hlé.  Ekki voru mörg mál á dagskrá.  Rætt var m.a. um væntanlegt íbúaþing sem halda á 10. febrúar nk. og ber yfirskriftina, það er rok,rok ég ræ ekki, hvað geri ég þá! Ég er í stýrihópi sem skipuleggur þetta íbúaþing og fer ég á fund á morgun því tengdu. 

Að öðru leiti var dagurinn nokkuð góður.  Vann örlítið í bókhaldinu mínu á skrifstofu endurskoðanda míns.  Vinnan þar fer þó stundum fyrir ofan garð og neðan hjá mér því á milli starfsmanna fljúga oft ansi smellnar gamansögur um hin ýmsu málefni sem kitla hlátutaugarnar svo um munar.  Ég fíla mig vel þar.  Gott að vinna á stað þar sem andinn er góður.

Fór í ræktina með bóndanum seinnipartinn og míkti mig svo upp í heita pottinum. Það er allra meina bót. Ætlaði síðan á AA fund inn á Ísafjörð í kvöld en varð að snúa við vegna stórs snjóflóðs á Óshlíð rétt utan við krossinn.  Ég hef aldrei séð svona stórt snjóflóð og það fór aðeins um mig ónotatilfinning og mér var hugsað til Bjarka og Skarphéðins sem fórust á þessum stað fyrir 18 árum.  Man það eins og gerst hefði í gær. Mikið verður gott að fá jarðgöng.

Ekki grunaði mig að ég hefði frá svona miklu að segja svona fyrsta kastið. Trúlega nennir enginn að lesa þessa endaleysu og það er bara í lagi. Vonandi kemur andinn yfir mig aftur á morgun. Hafið það gott að góða nótt.


« Fyrri síða

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Jan. 2007
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 635895

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband