24.1.2007 | 08:46
Flokkaflakk.
Kristinn H. Gunnarson heldur áfram þeim sið að flakka milli flokka. Ef þessi annars ágæti maður er sáttur við það sjálfur þá er það gott. Kjósendur hljóta að segja sína skoðun á þvi í kjörklefanum í vor. Ekki veit ég hversu vel hann aðlagast í Frjálslynda flokknum og verður tíminn að leiða það í ljós en þetta er vissulega sérstakt.
Margir halda eflaust að ég sé alveg að tapa mér í þessum bloggfærslum. Ég sit við löngum stundum og skrifa og mig grunar að þetta geti ekki endað með öðru en geðveiki eða dauða. Ég hef bara svo einstaklega gaman af þessu og þarf eitthvað á því að halda núna. Ég gær litu eitthundrað manns inn á síðuna og ég er mjög upp með mér, það segir mér það að þetta bull í mér vekur athygli.
Mig hefur langað lengi að skrá söguna hans pabba en hann er alveg einstaklega fróður um líf og störf manna hér í Bolungarvík og segir skemmtilega frá. Nú ætla ég að fara í það verkefni að fá mér diktafón og taka karlinn upp á band. Versta er að hann er hann er svo óþekkur að núna þykist hann ekki hafa frá neinu að segja og setur á sig snúð ef ég minnist á þetta en ég á eftir að losa um málbeinið á karli. Sagan hans pabba skildi þó ekki verða næsta metsölubók fyrir næstu jól. Þarna sjáið þið, ég er alveg að verða vitlaus.
Gömlu hjónin eru annars mjög upptekin yfir litlum hefðarhundi sem heitir Bína. Það er full vinna að stjana við hana daginn út og daginn inn. Ég vildi að að hefði verið látið svona með mig þegar ég var krakki. Annars hef ég ekki yfir neinu að kvarta frá mínum uppvaxtarárum, þetta er svona meira sagt í gamni.
Nú á ég von á húshjálpinni fljótlega. Jólaskrautið allt komið ofan í kassa svo jólin eru endanlega fyrir bí í bili. Ég hlakka til að finna hreingerningarilminn í loftinu. Ætli ég fari ekki á skrifstofuna á meðan hún þrífur og vinni örlítið í bókhaldinu. Þar heyri ég kannski eitthvað skemmtilegt sem ég get sagt ykkur frá síðar.
Eins og ég sagði ég gær þá er Andri að klára einkaflugmanninn. Fer í prófið um helgina. Þá getur hann farið að fljúga vestur og sækja mömmu sína. Ég sé það alveg fyrir mér að geta skroppið þá og þegar á útsölu hér og þar í borg allra hinna stóru tískuverslana. Annars keypti ég mér leðurbuxur á útsölu í Jóni og Gunnu nýverið. Ég hef alltaf verið veik fyrir leðurbuxum og alltaf á einar eða tvennar í handraðanum. Andri hlær sig alltaf máttlausan yfir þessum leðubuxnakaupum mínum, honum finnst ég trúlega orðin of gömul fyrir leður. Ég hefði trúlega gert mig munaðarlausa ef mamma hefði gengið i leðri þegar hún var komin á fimmtugsaldur, en nú eru víst breyttir tímar. Andri sagði eitt sinn að ég væri veik á bak við ennið að láta svona. Reikna með því að það merki að mér sé illt í höfðinu. En hann ætti ekki að segja mikið því hann er bara ekkert ólíkur mömmu sinni í mörgu, svo okkur hlítur að vera illt á sama stað.
Það sprakk á heimilisbílnum hjá Elsu í gær inn á Eyrarhlíð. Eftir því sem hún sagði sjálf þá tókst henni að mestu leiti að skipta um dekk sjálf. Annars erum við svo merkilega heppin að ef bíllinn festist eða eitthvað annað kemur upp á með bílinn þá virðist hann Tóti alltaf vera til staðar okkur til aðstoðar. Þetta er í þriðja sinn sem hann birtist eins og verndarengill og hjálpar okkur út úr vandræðum. Það er munur að hafa svona góðan aðstoðarmann sem passar upp á okkur á bílnum.
Svo ekki sé á neitt af börnunum hallað þá er Lilja í góðum gír. Fór í gítartíma í gær til Mariolu og lék fyrir mig sinfóníur og sónötur af miklum móð eftir hún kom heim. Gítarinn er hljómfagurt hljóðfæri. Ég hef gert tvær tilraunir til að læra á gítar í tónlistarskólanum, fyrst hjá Siggu Nóu og seinna hjá Haraldi nokkrum sem var kennari hér um tíma. Skemmst er frá því að segja að ég gat ekkert lært. Ég sem get allt sem ég vil. Það hefur trúlega vantað eitthvað upp á áhugann. Það væri lúxus að kunna á gítar og geta sungið í Kjallaranum svona kvöld og kvöld en það verður ekki á allt kosið.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.1.2007 | 00:02
Tíminn taumlaust áfram æðir.
Bjarndís Jónsdóttir tengdamamma mín á afmæli í dag. Hún er fædd í Selkoti í Þingvallasveit 24. janúar árið 1934. Hún er dóttir hjónanna Guðrúnar Einarsdóttur og Jóns Bjarnasonar snikkara en hann var sonur Bjarna Jónssonar sem einnig var snikkari en hann byggði Bjarnaborgina svokölluðu í Reykjavík. Glæsilegt hús. Badda er ein sex systra en tvær eru eftirlifandi fyrir utan Böddu, Kristrún eða Dúna og Bjarney sem kölluð er Eyja. Mig langar að senda afmælisbarninu smá vísukorn.
Tíminn taumlaust áfram æðir
klukkan tifar fram á veg.
Skálda söngur frá mér flæðir
senda kveðju vildi ég.
Með okkur liggja þéttir þræðir
þakklát vagninn með þér dreg.
Sagan hljómar hátt um hæðir
hve tengdamamma er æðisleg.
Hafðu það svo gott í dag og bestu kveðjur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.1.2007 | 16:34
Fari það í tófuskott.
Á bæjarráðsfundinum í morgun var rætt um greiðslu fyrir tófuskott '' hlaupandi dýra'' sem sagt, þeirra dýra sem hafa orðið svo óheppin að hlaupa fyrir bíla og látið lífið af þeim völdum. Greiddar hafa verið sjöþúsund krónur fyrir skottið og það munar um minna. Andri minn hafði keyrt yfir tófu fyrir löngu og við höfðum geymt skottið í skúrnum. Ég hélt að einungis þeir sem hefðu til þess tilskilin leyfi gætu fengið greitt fyrir skottið og hafði því ekki fyrir því athuga það frekar. Ég þóttist hafa himinn höndum tekið við þessar fregnir og var hin ánægðasta og ætlaði mér svo sannarlega að gangast í þetta mál strax í dag. Andri er í námi í Borgarholtsskóla og er að klára einkaflugmanninn og veitir ekki af aurum. Ég hafði þessvegna fyrir því að fara inn í áhaldahús með fjárans skottið, fá þartilgerða kvittun hjá Hreina og arkaði svo galvösk á bæjarskrifstofuna til að ná í peninginn. Viti menn, þá var búið að setja reglur um greiðslur tófuskotta í salt og var það ákveðið í hádeginu!!! Ég fékk þar af leiðandi ekki krónu með gati fyrir alla þessa fyrirhöfn. Reyndar er bæjarfélaginu ekki skilt að borga fyrir þetta en hefur þó gert það hingað til. Nú þarf hæstvirt landbúnaðarnefnd að funda til að setja reglur um hvernig haga beri greiðslum fyrir þennan ófögnuð eða hvort það eigi yfir höfuð að greiða fyrir þessi dýr.
Eins og þið heyrið þá er Vertinn pirraður yfir því að vera að eyða sínum dýrmæta tíma í svona kjaftæði en samt sæll í sinni yfir því að setja ekki bæjarsjóð meira á hliðina en orðið er. Ætli ég sækji skottið mitt ekki í áhaldahúsið aftur, því ekki get ég verið skottlaus í framtíðinni það er ljóst.
Svo er mál til komið að ég hætti þessu nöldri.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.1.2007 | 12:20
Léttir strengir.
Þá er bæjarráðsfundurinn afstaðinn. Hann var lengri en ég reiknaði með en aðeins tvö mál voru á dagskrá fundarins í útsendri dagskrá, aðrir liðir tóku þá við. Ég vakti athygli á að moka þyrfti göngustíginn oftar sem liggur meðfram sandveginum en hann er mikið notaður af gönguhrólfum bæjarins. Sjálfstæðismenn létu leggja þennan göngustíg á síðasta kjörtímabili og mega vera stoltir af.
Formaður bæjarráðs setti fundinn og fór yfir helstu fundasköp í morgunsárið og trúlega veitti ekki af því ég og Gunnar Halls eigum það til að gleyma okkur og slá á létta strengi og hlæja pínulítð og gera grín en það er auðvita ótækt á fundum svona merkilegs ráðs. Það þykir í lagi að brosa aðeins út í annað en ekki meir.
Ég ætti að sjálfsögðu núna að vera að taka til hér á heimilinu, hef ætlað að gera það í marga daga ef ekki vikur. Jólaskrautið er enn í reiðileysi á stofugólfinu og bíður eftir því að komast ofan í kassa. En ég vel að setjast frekar niður við tölvuna og blogga og skjóta húsverkunum á frest. Ég verð samt að klára þetta í dag því í fyrramálið kemur til mín húshjálp sem ætlar að þrífa fyrir mig. Ég ætti ekki að vera að auglýsa það fyrir alþjóð hversu mikil drusla ég er við heimilsverkin en ég er einhvernveginn orðin þannig að ég skammast mín bókstaflega ekki fyrir neitt. Og hana nú.
Af því minnst er á jólaskraut þá verð ég að minnast á það að húsið hjá nágranna mínum er svo vel skreytt ennþá að skinið frá ljósunum lýsir upp allt hverfið. Það dregur svo niður í rafmagninu hjá mér út af þessari gífurlegu orkunotkun nágrannans að ég get varla sett í brauðristina. Jólasveinninn sem búin er að hanga utan á tröppunum síðan löngu fyrir jól, reynir ennþá eftir fremsta megni að klifra upp þær og er ábyggilega orðinn úrkula vonar um að hann eigi nokkurn tíma eftir að ná á leiðarenda. Aðventuljósin beina ljósi sínu inn allt djúp og eru án efa kærkomin lýsing fyrir skip og báta. Maggi Hans ætlar kannski að láta þessi ljós loga fram að næstu bæjarstjórnakosningum. Það skildi þó ekki vera.
Ég var reyndar vakin eldsnemma í morgun því Skúli hringdi í mig og lét mig vita af því að gluggi í Einarshúsinu væri opinn og slægist fram og aftur í hvassvirðinu. Svona vökum við nú yfir náunganum hér í Víkinni. Ég reif mig fram úr og fór niður eftir og festi gluggann aftur. Mér reyndar brá örlítið við hringinguna frá honum því ég hélt rétt sem snöggvast að eitthvað hefði hent hrossin mín því þau eru geymd í hesthúsinu hjá Skúla, en sem betur fer var þar allt með kyrrum kjörum. Skúli hringdi í mig í sumar og sagði að Blesi minn væri dauður, hann lægi steindauður í ánni sem liðast niður Tungudalinn. Við urðum frekar sorgmædd við þær fréttir en svo hýrnaði yfir mannskapnum á ný þegar Skúli hringdi aftur stuttu seinna og bar söguna til baka. Hann hafði þá tilkynnt andlát á röngum hesti. Skondið eftir á.
Tel núna best að taka mér smá hlé, hleypa í mig kjarki og ráðast til atlögu við jólaskrautið. Ég á örugglega eftir að láta meira í mér heyra í dag.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2007 | 20:59
Langavitleysa.
Enginn mánudagur hefur verið í mér í dag enda engin ástæða til þess. Þessi dagur rann upp eins og hver annar dagur með væntingar, vonir og þrár innanborðs.
Gaui bróðir kom í morgun kaffi sprækur og hress að vanda. Ekki fer þar mikill æsingamaður enda rólegur að eðlisfari eins og pabbi. Honum var þó nokkuð skemmt því honum hafði borist til eyrna fyrir helgina sú fregn að hann væri orðin fram úr hófi þjófóttur, hefði brotist inn í skrifstofuna hjá Gná og væri best geymdur í tugthúsinu með öðrum ámóta glæpamönnum. Þessi upplogna staðreynd virðist hafa gengið um bæinn í einhverju mæli. Hann átti semsagt að hafa brotist inn til vinnuveitenda sinna til að rupla þar og ræna, hann Gaui sem má ekki vamm sitt vita. Hann myndi frekar stela hinni heilögu biblíu af páfanum sjálfum heldur en að gera eitthvað á hlut þeirra bræða í Gná. Það hefur aldrei mátt segja styggðaryrði um þá Einar og Elías í hans eyru.
Í Bjarnabúð í dag var ég síðan spurð að því hvort ég væri ófrísk??? Sú saga á víst að vera komin á kreik. Ég ákalla nú bara guð minn og skapara fyrir hvað hún Gróa gamla er orðin gersneidd af hugmyndaflugi. Gat hún nú ekki kjaftað krakka í einhvern annan en mig, miðaldara kerlinguna sem fyrir löngu er búin að segja skilið við barneignir. Ég þorði nú ekki að spyrja hver ætti barnið en ég reikna fastlega með að lagt sé upp með það, að barnið sé eingetið eins og frelsarinn forðum.
Ég lagði leið mína inn á Ísafjörð í dag eins og svo oft áður. Ég fer reglulega þangað. Ísafjörður er fallegur bær með mikinn sjarma. Ég fór í Myndás en Árný er að vinna fyrir mig myndir af Pétursfólkinu, en það var Pétur Oddsson, athafnamaður mikill, sem byggði Einarshúsið árið 1902. Húsið gekk undir nafninu Pétursshús fyrstu árin en það urðu nafnaskipti á húsinu eftir að Einar flutti þangað með fjölskyldu sína. Pétur átti ömurlega ævi í húsinu og missti nær alla fjölskyldu sína úr berklum. Þegar Helga elsta dóttir hans dó árið 1930, var hún 14 líkið sem hann fylgdi til grafar frá þessu húsi sínu. Um þetta má lesa í bókinni Brímgný eftir Jóhann Bárðarson. Pétur dó 2. apríl 1931. Ég ætla að reyna að halda þessari sögu á lofti í húsinu og segi ykkur nánar frá lífi hans og starfi síðar.
Svona til gamans þá hafði Margrét Blöndal viðtal við mig einn sunnudagsmorguninn fyrir skemmstu. Þar sagði ég sögu hússins, sem ég hef sagt svo oft áður og kann reiprennandi. Þar urðu mér á þau mismæli að segja að 30 manns hefðu dáið í húsinu og þótti mörgum ég krydda söguna liðugt. Þarna lágu sem sagt 16 manns aukalega í valnum í beinni útsendingu á RÚV. Þið hefðuð átt að sjá svipinn á mínu fólki eftir eftir viðtalið þegar þau sögðu mér óðamála frá þessum mistökum mínum. Margrét leiðrétti það síðar í þættinum og það blessaðist allt vel.
Ég fór síðan í kaffi á Hótelið og hitti þar Snorra og Kalla sem eru miklir meistarakokkar og reka SKG veitingar. Erindið var auðvita að fá þá til að verka og elda kúttmagana fyrir kúttmagakvöldið 17. febrúar nk. Ekki get ég sagt að þeir hafi brosað hringinn af ánægju yfir þessari beiðni minni en það er gífurleg vinna sem liggur í því að verka kúttmaga. Þeir gera þetta samt örugglega fyrir mig, þeir gera allt fyrir mig eða því sem næst. Einstaklega liprir og þægilegir menn.
Sveitungar mínir úr Dýrafirði birtust síðan í kaffi á Hótelið. Við eigum sumarhús í Dýrafirði í Núpsdal í landi Klukkulands sem heitir Hólakot. Þar er gott að vera en alltof sjaldan gefst tími til að fara þangað sökum anna. Sá tími mun þó koma þegar hægist um og þá getum við dvalið þar oftar. Beggi og Lóa búa á Mýrum í Dýrafirði og er stórskemmtilegt að spjalla við þau hjón. Yfir rjúkandi kaffibolla og nýbakaðri eplaköku voru heimsmálin leyst en fyrr en varði var farið að rökkva og ég þurfti að halda heim. Það er svo uppbyggilegt að spjalla við skemmtilegt fólk.
Bóndinn verður í burtu eitthvað fram í vikuna og ég er því grasekkja um þessar mundir. Fræðslu- og forvarnarfulltrúinn fór með aðstoðaryfirlögregluþjóninum á Vestfjörðum, Jóni Svanberg, í yfirferð um umdæmið, væntanlega til að sýna sig og sjá aðra. Leið þeirra liggur til Patreksfjarðar. Ég efast ekki um það eitt augnablik að það verður vel tekið á móti þeim þar.
Bæjarráð fundar í fyrramálið. Fá mál eru á dagskrá svo ég reikna með að fundurinn verði í styttra lagi.
Göngutúrinn var genginn langleiðina að Ósi. Paparnir ómuðu í eyrunum svo takturinn var frekar hraður. Snarpar vindkviður smullu þó á göngugarpinum og mátti litlu muna að húfan fyki á haf út og Vertinn átti í basli með að haldast á veginum í mestu kviðunum. Sumir segja að það sé nánast alltaf logn í Syðridal og þeir sömu tala líka fyrir göngum þaðan yfir í Tungudal. Lognið fór alveg hreint rosalega hratt yfir í Syðridalnum seinnipartinn í dag. Þig getið sjálfsagt lesið á milli línanna að mér hugnast ekki sú leið. Ég vil fara Skarfaskersleiðina, sneiða fram hjá Hnífsdal og verja Eyrarhlíð en ég tek fagnandi ákvörðun samgönguráðherra hver sem hún verður um bættar samgöngur hér á milli. Hann hefur boðað að sú leið verði fyrir valinu sem tryggi fullt öryggi alla leið og ég veit að hann stendur við það. Með vindinum bárust þó gleðitíðindi úr dalnum sem ég segi ekki nánar frá hér.
þar sem við mæðgurnar eru bara þrjár heima ætla ég að bjóða upp á ís og hafa það notalegt yfir sjónvarpinu og ætla því að fara á Shell til Geira. Heyri að það er að hvessa úti svo það er best að ég láti hér staðar numð í bili.
Ég dáist að ykkur fyrir að nenna að lesa þessar lönguvitleysur mínar.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2007 | 22:23
Bæjarbragur.
Set að gamni inn bæjarbraginn. Braghættir eru ekkert endilega í hávegum hafðir í þessum erindum. Aðallega reynt að láta textann falla vel að laglínunni. Glöggvir lesendur reka væntanlega augun í það að eitt erindið fjallar um Vertinn sjálfan en ég vann braginn eftir punktum nefndarkvenna.
Lag: Hagavagninn
Nú ætlum hér að segja ykkur sögu
og syngja lítinn bæjarbrag.
Sem samansettur er í litla bögu
og fluttur skal nú hér í dag.
Nú knálega skal kveða hér um bæjarbúa,
og kynjakvistir skerf sinn fá.
Hér merkilegar, meiriháttar sögur fljúga
sem bæinn setja svip sinn á.
Það siður er á hverju byggðu bóli
að eiga eina mektarmær
Sem forseti á háum valdastóli
Sossa loksins sitja fær.
Að ná hér hreinum meirihluta staðföst keppti,
því ríkjum vildi ráða hér.
Og skólastjórastöðuna hún loksins hreppti,
þar stolt nú stýrir barnaher.
Hér bæjarstjóra varð þá strax að ráða
þá þóttu góð ráð vera dýr.
Þroskaþjálfa hvetja varð til dáða
því leitað var að fræknum fýr
Hann varð að vera skemmtilegur, snjall og sætur
það borgaði sig þúsundfalt.
Á bassann geta spilað daga jafnt sem nætur
tónelskur og til í allt.
Í Hólshreppi fór stórgrýtið að skríða
niður hlíðar allt um kring.
Svo hugljúft er á Grjóthrunið að hlýða
er bergmálar um fjallahring.
Af fingrum fram þeir léku hér í sjónvarpsþætti
um Óshlíðina napurt níð.
Skondinn smell sem eflaust margan manninn kætti
Lýður söng í erg og gríð.
Hér lífið oft er enginn hægðarleikur
ef læknishjónin eru á vakt.
Þá þýðir ekki neitt að vera veikur
ef hljómsveitin skal slá í takt.
Þau hafa engan tíma til að svara síma
og sjúklingurinn fer í bið.
Þeim verðum þá að gefa nokkuð góðan tíma
og treysta bara á almættið.
Í Einarshúsi gleði er og glaumur
og saman gleðst þar sérhver sál.
Og einatt liggur þangað stríður straumur
þótt sumir glingri létt við skál.
Nú efri hæð í Kjallaranum senn er búin
því Ragna á svo góðan smið.
Og upp í Péturskaffi fýrug fetar frúin
Nú leiðin liggur upp á við.
Hann Einar Kristinn skotveiði vill stunda,
úr augum veiðigleðin skín,
og skemmtilegast er að veiða lunda
en sagan hér er ekkert grín,
Því sjávarútvegsráðherrann þá stóð í ströngu
hann þóttist hafa hildi háð.
En veiðikortið hans var ónýtt fyrir löngu
samt skaut hann eina væna bráð.
Svo gerðist það á vetrardegi löngum
að Stúkuhúsið hvarf á braut.
Og ennþá bíða allir eftir göngum
nú leysa þarf þá vega þraut.
En nú við skulum skemmta okkur hérna saman
og gleyma dagsins amstri um sinn.
Með bros á vör á þorrablóti höfum gaman
og göngum inn í gleðskapinn.
Þorrablótið 2007
Höf: Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.1.2007 | 15:20
Frú formaður.
Þau tíðindi gerðust á Þorrablótinu í gærkvöldi að ég var kosinn formaður næstu skemmtinefndar. Þann titil ber ég í heilt ár og er ég mjög upp með mér yfir því trausti sem mér er sýnt. Með mér í nefnd eru tíu konur og ég hlakka til að vinna með þeim að næsta blóti. Ég held að þessi formennska eigi þó eftir að stíga mér til höfuðs því ég finn nú þegar að það rignir örlítið meira upp í nefið á mér í dag en í gær. Ég er að velta fyrir mér hvort ég eigi að láta ávarpa mig með sérstökum hætti vegna þessa og liggur það beinast við að kalla mig'' frú formann'' en ætli ég láti nokkuð verða af því.
Skemmtiatriðin lukkuðust mjög vel og voru skondin og smellin. Þær sungu bæjarbrag eftir mig og gerðu það vel, voru skírmæltar og innihaldið komst vel til skila. Sú umræða sem verið hefur um siði og hefðir blótsins höfðu engin áhrif á skemmtunina og ég hef á tilfinninguna að fólk hafi frekar styrkst í þeirri trú að breyta engu. Ég vona að við berum gæfu til að skiptast á skoðunum um þorrablótið á götuhornum fyrir næsta blót en ekki í fjölmiðlum. Höldum frekar á lofti jákvæðum fréttum af byggðinni okkar, ekki veitir af.
Ég og Kjallarinn minn fengum skerf að níði og háði sem segir mér það að það virðist renna í mér blóðið og tekið er eftir því sem ég er að gera. Ég lít á það sem upphefð að ef gert sé grín af mér á þorrablótinu. Nokkuð gott fannst mér atriðið þegar Kjallarinn auglýsti tvo fyrir einn á fyrirlestri forvarnar og fræðslufulltrúa lögreglunnar á Vestfjörðum sem halda átti eitt föstudagskvöldið á kránni. Auðvita er þetta bara bráðfyndið. Samt var allt á Huldu varðandi Kötu kvæðið sem sungið var og passað var upp á að Halla ekki á neinn. Þarna er vísað í viss greinarskrif í BB.
Lífið heldur þó áfram eftir þorrablót og við þreyjum Þorrann að vanda af þolinmæði. Senn munum við sjá til sólar en hér felur sólin sig bak við fjöllin háu um dimmasta árstímann en fer að láta sjá sig um þessar mundir. Þá leika geislar hennar um þessa fallegu Vík og dansa tignarlega um fjallasali. Birgir á Miðdal sér þó ekki sólina alla fyrr en 8. febrúar inn í Syðridalnum og þá kemur hún upp við Kistufellið. Ég veit þó að hann Birgir sér ekki sólina fyrir henni Kæju sinni allan ársins hring, ég þekki það frá því ég var krakki og var að leika við hana Guðnýju yngstu dóttur þeirra hjóna. Við Guðný brölluðum mikið saman og þá var nú lífið ljúft.
Ég er búin að vinna morgunverkin og hrossin komin út í fallegan og bjartan daginn. Hver veit nema ég fari í útreiðatúr í dag. Annars er góður göngutúr á dagskránni á eftir en við hjónin örkum stundum góðan hring á góðvirðisdögum. Þá geng ég reyndar mishratt því ég er alltaf með MP-3 spilara í eyrunum því mér finnst svo gott að labba og hlusta á tónlist og takturinn í göngunni því misjafn eftir því hvaða lag ég er að hlusta á. Bóndinn reynir eftir fremsta megni að fylgja mér eftir en það gengur misjafnlega vel. Það er örugglega oft sjón að sjá þegar við erum á ferðinni í heilsubótargöngu.
Makalausar fréttir af Guðmundi Jónssyni fyrrum forstöðumanni Byrgisins. Alveg merkilegt hvað maðurinn er siðblindur og á erfitt með að greina rétt frá röngu. Það er ömurlegt til þess að hugsa að hann skuli í krafti stöðu sinnar misnota fólk sem á svona erfitt og leitar til hans í sínum erfiðleikum. Hann á vonandi eftir að þurfa að standa skil á sínum gjörðum á endanum.
Ég þekki lítlilega hvað fólk gengur í gegnum í meðferð. Fór sjálf á Vog í nóvember fékk innsýn í líf fíkla sem langt eru gengnir með sinn sjúkdóm. Mér fannst það einstök upplifun. Ég fór reyndar ekki í framhaldsmeðferð en á kost á því ef á þarf að halda. Það er gott að vera á Vogi og ég er einstaklega heppin af hafa fengið að dvelja þar um tíma til að ná áttum í mínu lífi. Ég á miklu betra líf núna og er þakklát fyri það. Ég á örugglega eftir að tala meira um minn fíkn sjúkdóm á blogginu mínu síðar.
Núna fussa eflaust einhverjir og sveia yfir því að ég skuli kalla áfengisfíkn sjúkdóm en ég leit ekki á mig sem sjúkling þegar ég gekk á fund Þórarins Tyrfingssonar yfirlæknis á sjúkrahúsinu Vogi. En núna veit ég betur. Heilinn í mér starfar öðruvísi en heilinn í þeim sem ekki misnota vímuefni en það gerir mig ekki að verri manneskju fyrir vikið, nema síður sé. Mér þykir gott að finna stuðninginn sem ég hef fengið eftir ég kom heim bæði frá vinum mínum og fjölskyldu sem og bæjarbúum og ég tjái mig óhikað um þessi mál í þeirri von að það geti komið einhverjum að gagni.
Nú hugsa eflaust einhverjir að nú sé ég orðin ga ga, vesæll og aumur fyrrverandi drykkjusjúklingur sem hefur það að markmiði að þurrka upp líðinn. Það er öðru nær, Vertinn í Víkinni væri þá í vondum málum og færi trúlega á hausinn. Tel best að hætta þessu þrugli í bili. Vonandi eigið þið góðan dag.Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.1.2007 | 18:09
Kúrt við kamínuna.
Þá er dagur hins merka Þorrablóts runninn upp og trogið komið á sinn stað í Félagsheimilinu. Þar tóku á móti okkur nefndarkonur klæddar sem laganna verðir til að hafa eftirlit með því að farið væri eftir þeim reglum sem þar gilda og að allar hefðir væru í hávegum hafðar. Sem sé, að enginn óviðkomandi sem ætti þangað ekkert erindi, myndi mæta og hleypa þar öllu í bál og brand.
Vinur minn og nágranni, Magnús Ólafs Hansson var mættur brosandi og sæll, þrátt fyrir allar yfirlýsingar þess efnis að mæta ekki á opinberar samkomur á þessu kjörtímabili. Hann er búin að vera eitthvað argur eymingja karlinn síðan í kosningunum s.l. vor. Ég skemmti mér konunglega yfir því að hann skuli ætla að mæta en sagði honum jafnframt að hann myndi fá umfjöllun um heimskuhátt sinn á blogginu mínu. Hann tók því fagnandi enda alla jafna mjög geðprúður maður. Mér finnst svo gott að vita af honum á blótinu og ég vona að hann eigi eftir skemmta sér vel í kvöld.
Spilavist.
Það var stórskemmtilegt á spilavistinni í gærkvöldi. Spilað var á fimm borðum og mikil stemning ríkti meðal manna. Sigurvegarar kvöldsins voru Arnar Smári og Gaui Ingólfs, sem hét Guðjóna í gærkvöldi og spilaði sem kona, enda frekar stelpulegur. Þeir hlutu að launum geisladiskinn með Ólafi Kristjánssyni, tónlistarmanni og fyrrverandi bæjarstjóra. Þeir sem voru á botninum með fæst stigin voru Gummi Einars og pabbi, en þeir fengu kerti og servíettur í verðlaun. Ég er búin að reyna að fá pabba til að koma en ekki gengið fyrr en nú en hann þótti liðtækur spilari í denn. Hann á örugglega ekki eftir að láta sig vanta á spilavistina í framtíðinni. Arnar Smári fékk líka verlaun fyrir að hafa flestu stigin eftir þrjár síðustu keppnir og fór heim með flösku af eðaldrykk.
Kúttmagakvöld.
Lionmenn funduðu í Kjallaranum í gærkvöldi um kúttmagakvöldið sem er árlegur viðburður hjá Lion. Það verður að þessu sinni haldið í Péturskaffi í Einarhúsi 17. febrúar nk. og mun ég halda utan um það með aðstoð nefndarinnar. Þar verður að vanda mikið fjör og mikið gaman. Hefð er víst fyrir því að kórdrengir eins og Hafþór Gunnarsson og aðrir valinkunnir andans menn segi biblíusögur og kyrji sálma yfir kúttmögunum og þeir fullyrtu við mig í gær að allir brandarar sem sagðir væru á þessu kvöldi væru fyrir ofan mitti. Ég veit svo sem ekki hvar mittið er á þessum ágætu piltum en miðað við það sem ég hef heyrt af þessum kúttmagakvöldum þá hlýtur það að vera ansi neðarlega. Ég hef oft óskað þess að fá að vera fluga á vegg þegar þeir eru komninr í gírinn og farnir að segja sögur á slíkum kvöldum og nú legg ég vel við hlustir.
Þorrablót.
Mig langar að halda Þorrablót í Péturskaffi 10. febrúar ef næg þátttaka fæst og ætlar Benni Sig. að vera mér til aðstoðar. Benni er frábær, svo ljúfur og góður drengur. Okkur langar að hafa þetta svoldið gamaldags. Hver veit nema Vertinn semji gamanvísur, Benni fer létt með að flytja þær enda stórgóður söngvari og liðtækur á hin ýmsu hljóðfæri. Hver veit nema það verði slegið upp harmonikkuballi og boðið verði upp á vöfflur og súkkulaði í hléi líkt og gert var á skemmtunum í Stúkuhúsinu hér forðum. Kamínan sem súkkulaðið var hitað á í Stúkuhúsinu í upphafi sómir sér vel í Péturskaffi en við fengum kamínuna að gjöf frá Bjarna Ingólfs áður en Stúkuhúsið var rifið. Á þetta þorrablót fá væntanlega allir að fara, gagnkynhneigðir sem samkynhneigðir, tvíkynhneigðir og sjálfkynhneigðir, giftir og ógiftir og flest þar á milli. Ég á kannski eftir að útbúa reglur síðar og læt ykkur frétta af því jafnóðum.
Að öðru leiti var rólegt í Kjallaranum í gær og nótt. Svo rólegt að ég sofnaði í stólnum við kamínuna undir sögum gesta um friðlandið á Hornströndum og öðrum sögum af mönnum og málefnum. Skemmtilegar sögur en ég var eitthvað svo þreytt. Ég er aldeilis dálaglegur gestgjafi að sofna svona. Gunna Ásgeirs prjónaði af hjartans list á meðan og hafði umsjón með barnum. Einn útprjónaður barnagalli var pantaður hjá henni á fimm mánaða gamal barn. Já, það er hægt að fá nánast allt í Kjallaranum.
Það er best að fara að hafa sig til fyrir blótið. Ég bauð borðfélögum mínum í smá partý í Einarhúsi kl. sex. Það verður án efa skemmtilegt.
Læt í mér heyra á morgun.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.1.2007 | 10:10
Bóndadagur
Til hamingju strákar með bóndadaginn. Bóndinn minn á einnig afmæli í dag, hann er 46 ára gamall. Já ég sagði fjörutíuogsexára gamall. Ég hlýt að þurfa að fara að yngja upp. Ég vona að hann verði ánægður með þokugleraugun sem ég keypti handa honum í afmælisgjöf.
Læt kannski heyra frekar í mér áður en dagur er allur.
Stelpur, stjanið svo við strákana í dag.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2007 | 01:14
Fugl sem flýgur hratt.
Það má með sanni segja að tíminn er fugl sem flýgur hratt, lífið bókstaflega hendist áfram. Mér finnst ég stefna hraðbyri á grafarbakkann þessa dagana og ég virðist ekki komast yfir að gera nærri allt sem mig langar að gera yfir daginn. Áður en varir er dagurinn lagstur til hvílu og nóttin búin að hreiðra um sig. Mér er mikið í mun að ná að blogga eina færslu áður en ég leggst útaf og svíf í draumalandið og er reyndar upptekin af því meira og minna allan daginn að upphugsa eitthvað viturlegt til að skrifa um.
Dagurinn hófst seint hjá mér, enda kúrði ég frameftir. Það er svo notalegt að geta leyft sér að lúra undir sænginni í rökkrinu og dorma fram eftir morgni ef maður er þreyttur og það eru í raun mikil forréttindi að geta það.
Þegar ég loksins drattaðist framúr svaraði ég nokkrum bréfum í tölvunni sem mér höfðu borist . Við vinkonurnar, ég og Halla Signý skiptumst á skoðunum varðandi reglur Þorrablótsins en við erum algjörlega á öndverðum meiði í þeim efnum. Hún segir mig forpokaða kerlingu og ég tek alveg undir það hjá henni. Við Halla erum búnar að þekkjast í tugi ára og báðar fæddar 1. maí og erum því fastar á okkar skoðunum og hvorugar gefa tommu eftir. Bara gaman að því.
Bæjarmálin.
Minnihlutinn í bænum hittist á fundi í hádeginu að vanda fyrir bæjarstjórnarfund og ræddi bæjarmálin. Við eigum einn fulltrúa í bæjarráði og erum því vel upplíst um þau verkefni sem bæjarráðið er að vinna að hverju sinni. Ég, Elías, Baldur og Elín varamaður erum mjög gott teymi og vinnum ákaflega vel saman svo ég segi sjálf frá. Bæjarstjórnarfundur var síðan haldinn seinnipartinn og þar voru fundargerðir bornar upp til samþykktar eins og gengur. Farið var yfir seinni umræðu fjárhagsáætlunar og gjaldskrár sveitarfélagsins. Skemmst er frá því að segja að samvinna meiri og minnihlutans gengur mjög vel, enda stefnum við öll í bæjarstjórninni að sama markmiði, að vinna að velferð bæjarins okkar. Það eru vissulega skoðanaskipti um hin ýmsu málefni en okkur hefur að mínu viti, lánast að taka á þeim af skynsemi. Baldri var hælt mikið fyrir sinn þátt í fjárlagagerðinni enda bráðskarpur strákur og vel gefinn. Ég get ekki annað en tekið undir það og er hæst ánægð með að hafa hann í mínu liði. Grímur bæjarstjóri ber svo höfuð og herðar yfir okkur öll hin, enda yfir tveir metrar á hæð og bara hreint ágætur og stendur sig vel.
Þorrablótið.
Vertinn hefur nóg að gera, því ég sé um veitingarnar á Þorrablótinu og þarf því að passa upp á að næganlega mikið magn af guðaveigum verði til á barnum fyrir blótsgesti. Ég þarf að ráða til mín mannskap til að vinna og það er að mörgu að hyggja. Gunna Ásgeirs vara Vert í Kjallaranum stendur sína plikt á barnum eins og vanalega. Ég veit hreint ekki hvar ég væri stödd ef hún væri mér ekki til aðstoðar. Hún er algjör perla þessi kona.
FHB.
Blótið er haldið í Félagsheimili Bolungarvíkur sem var vígt árið 1952. Það er komið nokkuð til ára sinna og brýn þörf á því að fara í endurbætur á húsinu. Nefnd var skipuð á síðasta kjörtímabili sem vinnur að því verki. Verið er að teikna breytingar á húsinu og miðast það allt í rétta átt. Aðal vandamálið er fjármögnun þessa verks en þetta er mjög kostnaðarsöm framkvæmd. En þarna slær nú hjartað okkar og við teljum afar brýnt að reisa þetta hús aftur til vegs og virðingar.
Á sama tíma að ári.
Í kvöld hitti ég Guðlaugu trogfélaga minn. Við fórum yfir helsta slúðrið sem gerst hefur í bænum frá síðasta blóti og gátum hlegið mikið. Hláturinn lengir lífið. Lauga var að baka rúgbrauðið og skatan beið á eldhúsborðinu eftir því að verða stöppuð. Ég fæ síðan magálinn og harðfiskinn hjá pabba. Hrútspungana, sviðasultuna og lundabaggana kaupi ég upp úr súr, og sviðin og hangikjötið síð ég á morgun. Þvílíkur matseðill, ég er þegar farin að fá vatn í munninn. Reyndar er smá kvíði í mér vegna þess að nú verð ég að bregða út af þeim vana að fá mér minn uppáhaldsdrykk á borðhaldinu með þorramatnum. En ég hef víst klárað bjórkvótann minn og verð að sætta mig við það. Drekk bara kalt og svalandi vatn og brosi svo framan í heiminn.
Spilavist.
Spilavistin er á föstudagskvöldið 19. janúar kl. 21:00. Allir að mæta ,vegleg verðlaun í boði.
Segi þetta gott í bili.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Vertinn í Víkinni
Tenglar
Bloggarar
Fréttir
- vikari.is
- bb.is
- mbl.is
- visir.is
- skip.is
- bolungarvik.is
- Lögregluvefurinn
- Heimsýn Hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum
- Bjarnarnes-Sjótaxi
- Freydís sf. Ferðaþjónusta
- Gesthouse Mánafell Gisting í Bolungarvík
- Raggagarður í Súðavík
- Heimasíða Einarshússins
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.8.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 11
- Frá upphafi: 635895
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
vikari
-
hallasigny
-
omarjonsson
-
komediuleikhusid
-
katagunn
-
lydurarnason
-
jyderupdrottningin
-
ekg
-
sigrunsigur
-
majabet
-
skordalsbrynja
-
ingisund
-
gudfinna
-
sigmarg
-
maple123
-
730
-
730bolungarvik
-
grazyna
-
skodunmin
-
daglegurdenni
-
matthildurh
-
otti
-
vestfirdir
-
golli
-
kolgrimur
-
hressandi
-
gylfigisla
-
hugrenningar
-
jonatli
-
gudni-is
-
esterrut
-
toshiki
-
gudrunmagnea
-
101isafjordur
-
ylfamist
-
blossom
-
kaffi
-
gattin
-
ameliafanney
-
helgi-sigmunds
-
hross
-
skolli
-
thurygudm