31.1.2007 | 09:04
Janúar kveður.
Síðasti dagur janúarmánaðar er að renna upp og hann lofar nokkuð góðu. Veðrið virðist vera gott svona við fyrstu sýn svo janúar virðist stíga síðustu skrefin í sátt við Guð og menn.
Dagurinn í gær var erilsamur, ég er í raun hálfundrandi hve miklu ég kom í verk. Sumir dagar virðast nefnilega komast upp með það að líða án þess ég geri nokkuð af viti.
Fyrst ber að nefna að ég hafði það af að panta tíma fyrir bílinn í skoðun en eitthvað virðist það hafa dregist fram úr hófi. Hin vökulu augu laganna varða hér vestra hafa fylgst nokkuð grant með mér og gefið mér illt auga vegna þessa undanfarið. Sumir þessara annars ágætu þjónar réttvísinnar hafa dregið augað í pung í hvert sinn sem þeir hafa mætt mér og ygglt sig yfir þessari yfirsjón minni. Þannig að nú geta þeir farið að elta uppi alvöru glæpamenn og einbeitt sér að öðru en að fylgjast með hverju mínu fótmáli á bílnum.
Það kom reyndar í ljós í skoðuninni að eitt dekkið var ónýtt svo ég brunaði beint á dekkjaverksstæði og lét skipta. Arkaði á meðan á Langa Manga og fékk mér swiss mokka og átti gott spjall við vertinn þar. Hann var í góðum gír að vanda, greip þó ekki í gítarinn og söng slagara að þessu sinni enda ekki vinsælt á þeim ágæta bar að vera með einhvern óþarfa hávaða ef marka má fréttir af klögu og kærumálum sem birtast af og til í BB á hendur þessum ágæta stað. Ég rek tærnar stundum þangað inn og finnst það ágætt en það verður enn betra þegar reykingar verða ekki leyfðar þar lengur.
Ég fór til Árnýjar en hún var búin að klára myndirnar af Pétursfólkinu. Ég er alveg hæstánægð með útkomuna en hún þurfti að vinna þær töluvert upp úr bókinni Brimgný en þar segir Jóhann Bárðarson sögu Péturs Oddssonar og hans fjölskyldu. Ég prúttaði reyndar aðeins um verðið á myndunum við litla ánægju ljósmyndarans, en ég verð að hugsa um hverja krónu. Ég hef reglulega gaman af því að segja sögu fólksins sem búið hefur í húsinu og mikla ánægju af því að glæða það lífi liðinna tíma með myndum.
Eftir það lagði ég leið mína í Bókhlöðuna eftir myndarömmum. Það er nú eitt. Alltaf er ég jafn forundrandi yfir afgreiðslunni þar. Afgreiðslumennirnir strunsa æði lítið brosmildir af einu borði á annað og vísa mér út um alla verslun eftir þeim hlutum sem mig vantar. Oftar en ekki verð ég svo rugluð að ég kaupi eintóma vitleysu bara til að losnað þaðan út. Fallega brosið hans Orra gerir það þó að verkum að ég slysast þangað inn öðru hverju. Þeir eru heppnir að hafa hann í vinnu.
Afmæli sundlaugarinnar fór vel fram. Margar ræður voru fluttar og sundlauginni bárust góðar gjafir. Toppurinn var svo kappsund milli Einars og Gríms en Óli Kitt bar fyrir sig bakverk á ögurstundu. Auðvita vann Einar, það var vitamál enda liðtækur sundkappi og Sjálfstæðismaður af bestu sort. Þó hafði Grímur töluvert forskot því hann er jú mikið hærri en Einar og það hlýtur að hafa eitthvað að segja. Boðið var upp á tertu á eftir en ég lét það eiga sig að smakka á henni.
Breytingar verða varðandi kútmagakvöldið. Þeir á hótelinu geta bara útbúið þá 10. febrúar, sama kvöld og ég ætlaði að hafa þorrablótið svo eitthvað fokkast þetta upp. Við verðum að láta sjá hvað setur.
Gógó vonkona mín á Flateyri verður næsti spyrill í Kjallarakppni 9. febrúar en Ómar Már sveitastjóri í Súðavík er á leið til Ásralíu svo hann spyr síðar. Við Ómar erum þremenningar, ömmur okkar voru systur, þær Ingbjörg og Auður Sigríður dætur áðurnefnds Hjálmars ( Hjalla Tudda). Gógó er hress og kát og án efa verður gaman að glíma við þær spurningar sem hún leggur fyrir gesti.
Ætli ég láti þetta ekki gott heita í bili og fari að gera eitthvað af viti.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2007 | 11:04
Afmæli sundlaugar.
Þá er bæjarráðsfundurinn búinn, þar var mikið rætt og mikið talað. Ég er eiginlega orðin þurrausinn eftir allt þetta málæði svona snemma dags. Gleðitíðindi bárust að bæjarstjórar á Vestfjörðum fara ásamt fylgdarliði á fund ríkisstjórnar og þingmanna svæðissins á föstudaginn. Það hlýtur að teljast jákvætt ef við getum unnið í sameiningu að málefnum fjórðungsins. Vonandi kemur eitthvað gott út úr þessari ferð.
Sundlaug Bolkungarvíkur fagnar 30 ára afmæli sínu í dag. Veisla verður fyrir bæjarbúa kl. 17:30 og þar kemst ég eina ferðina enn í tertur og tilheyrandi. Spenntust er ég fyrir kappsundi bæjarstjóra sem verður háð í sundlauginni. Grímur, Óli og Einar etja kappi í að troða marvaða. Mikið skal ég skemmta mér yfir því. Mér er mjög minnistætt þegar sundlaugin var tekin í gagnið. Kristján Möller kenndi okkur sundtökin og er það trúlega honum að þakka að miklu leiti að ég er þokkalega synd. Áður en laugin kom hérna fórum við krakkarnir á sundnámskeið inn á Ísafjörð með Kela á rútunni og það var vissulega ævintýri út af fyrir sig.
Halla Signý þurfti að dvelja á sjúkrahúsinu á Ísafirði í nótt en hjartað í henni tók upp á því að slá í einhverjum óreglulegum takti. Þriðja hvert slag sló hreint ekkert í takt við hin tvö á undan svo þetta var orðin hálfgerð taktleysa allt saman. Hún er búin að jafna sig sem betur fer, enda er ólseigt í kerlingunni. Hún er í óða önn núna að senda út glaðningarseðla frá bæjarskrifstofunni í formi fasteignaálagningar.
Baldur Smári vakti athygli á Vertinum á bloggsíðu sinni í gær. Sagði að ég væri frábær og yndisleg í alla staði. Baldur er fínn. Hann hefur reyndar haft í nógu að snúast undanfarið og rólegra hefur verið yfir Víkara.is en oft áður, en eitthvað er nú heldur að glæðast yfir þeim ágæta vef núna. En skýringin fyrir þessum miklu önnum Baldurs er auðvita sú, að hann hefur haft ''öðrum hnöppum að hneppa''.
Fjárans bókhaldið bíður og ég ætti að reyna að taka mig saman í andlitinu og fara að klára að vinna það.
Þið heyrið kannski betur í mér í dag.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2007 | 20:29
Hitt og þetta.
Það er ekki ráð nema í tíma sé tekið og ég er strax farin að huga að hljómsveit fyrir þorrablótið að ári. Það er eitt af skyldum formanns þorrablótsnefndar að útvega almennilegt band sem sérhæfir sig í gömlu dönsunum, nýbylgjurokki og pönki af ýmsu tagi. Ég verð auðvita að toppa öll fyrri blót og lág því beinast við að tala við Mick Jagger söngvara Rollinganna en ég tel mig þekkja hann ágætlega, a.m.k. á myndum. Elton John er nýbúin að troða hér upp í veislu og þykir ekki lengur flott að bjóða upp á spangólið í honum blessuðum karlinum. Skemmst er frá því að segja að Mick Jagger tók vel í hugmyndina og sagði það vera sérstaka upphefð fyrir hljómsveitina að fá að troða upp í þvílíku krummaskuði eins og Bolungarvík og þótti honum Félagsheimilið tilvalinn staður til að syngja gleðisöngva eins og ''I cant get no satisfaction'' og fleiri slagara í svipuðum dúr. Gaman væri ef Elvis Presley myndi syngja í hléum sínar ballöður til að hleypa rómatíkinni á hærra plan en eins og allir vita þá lifir Elvis enn, svo honum ætti því ekki að vera skotaskuld úr því að mæta hér vestur og taka lagið. Til öryggis ef allt myndi klikka þá hafði ég samband við Möggu Geirs sem er söngkona í stórsveit Baldurs Geirmunds og Möggu Geirs á Ísafirði og ég vona svo sannarlega að þau verði tilbúin að skemmta ef þeir Mick og Elvis forfallast. Hafði haft af því spurnir að þau væru upp pöntuð langt fram tímann svo ég ákvað að vera tímanlega og hringdi í Möggu í dag. Þau eru mjög skemmtileg á sviði og einstaklega fjörug og í ljós kemur á næstu dögum hvort þau verða tilkyppileg ef á þarf að halda.
Það er búið að rigna eldi og brennisteini dag. Sparisjóðurinn sýndi sjö gráður um hádegisbilið og ekki lýgur hann. Nýja skiltið út á Óshlíð sýndi tíu gráður og logn um miðjan dag. Þetta veðurfar er alveg með eindæmum núna í enduðum janúar.
Ég fór á fund með stýrihóp um Íbúaþing sem halda á 10. febrúar, en það var símafundur með fyrirtækinu Alta sem heldur utan um skipulagningu þingsins. Ég á eftir að skrifa grein um sýn mína á slíkt íbúaþing og hver veit nema eitthvað fæðist í huga mér seinna í kvöld sem ég get fest niður á blað um það.
Þorrablót Bolvíkingafélagsins er um næstu helgi í Reykjavík og leggja fjölmargir Bolvíkingar leið sína þangað. Ég hef aldrei farið á þetta þorrablót en á kannski eftir að upplifa það áður en ég leggst undir græna torfu.
Ég stefni á að halda Þorrablót í Kjallaranum 10. febrúar og sendi ég auglýsingu þess efnis frá mér fljótlega. Benedikt Sigurðsson eða Benni Sig. verður mér til halds og trausts, en hann ætlar að spila undir fjöldasöng og syngja gamanvísur. Síðan mun enginn annar er Hrólfur Vagnsson mæta með nikkuna og spila fyrir dansi eitthvað fram eftir. Ég veit að þetta á eftir að verða stór skemmtilegt. Nú verður forvitnilegt að sjá hvort einhver áhugi er fyrir slíku Þorrablóti en engar reglur ríkja um hverjir hafa aðgang að þessari skemmtun. Haldið verður í reglur og hefðir sem ríkja í Einarhúsi um reykingar en þær eru alfarið bannaðar. Það sígur verulega í Vertinn ef þær reglur eru brotnar og menn gera það ekki nema einu sinni.
Svo ég upplýsi hér hluta af stóru leyndarmáli þá er ég að íhuga að sækja um starf á Ísafirði á morgun sem er laust til umsóknar. Ég tel það næsta víst að ég verði frambærilegasti umsækjandinn en það á víst eftir að koma í ljós.
Bæjarráðsfundur í fyrramálið. Án efa get ég sagt ykkur einhverjar fréttir af þeim fundi.
Bið að heilsa í bili.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.1.2007 | 18:37
Íþróttamaður ársins.
Íþróttamaður ársins í Bolungarvík var valinn áðan við hátíðlega athöfn í Félagsheimilinu. Rögnvaldur Magnússon varð fyrir valinu að þessu sinni fyrir að skara fram úr í golfíþróttinni og ber hann þennan titil með sóma. Rögnvaldur stundar nám í háskóla í Danmörgu og var því fjarverandi en pabbi hans tók við myndarlegum bikar og viðurkenningum fyrir hans hönd. Margir fengu viðurkenningar fyrir góðan árangur í sínum íþróttagreinum og sendi ég þeim öllum hamingjuóskir. Það svignuðu veisluborð undan dýrindis tertum og öðru góðgæti sem Valli bakari og Gunnhildur reiddu fram af sinni alkunnu snilli.
Ísinn hafði hopað síðan í gær en ísspöngin lá hér rétt útaf í gær. Mér þótti öruggara að hafa teygjubyssuna mína tilbúna ef á þyrfti að halda ef ísbirnir gengu á land en sú varúðarráðstöfun reyndist ástæðulaus. Samt eru stjakar á víð og dreif um Djúpið sem líkjast snjóhnoðrum á haffletinum. Tilkomumikil sjón.
Veðrið í dag hefur verið dásamlegt. Ég og Lilja höfum varið deginum að stórum hluta í hesthúsunum. Við fórum í reiðtúr á Blesa mínum og Brá. Lékum okkur í gerðinu og höfðum gaman. Blesi fer með mig eins og drottningu en er ekki mjög sprettharður og vill fara rólega enda kominn til ára sinna. Ég prufaði Brá í fyrsta sinni en hún þykir mjög góður reiðhestur. Hún er einstaklega þíð skepna en töluvert viljugri en Blesi. Ég held að fátt slái því út að fara fetið á góðum klár í góðu veðri og njóta náttúrunnar.
Köld slóð er í bíó í kvöld. Ég hef heyrt að hún sé ekkert síðri en Mýrin og þá hlýtur hún að vera góð. Ætli við skellum okkur ekki bara í bíó í kvöld og brjótum hversdagsleikann aðeins upp. Þá eru allir sáttir við að ganga inn í nýja viku.
Ég fór á ráðtefnu um friðlandið á Hornströndum í gær og þótti einstaklega áhugavert það litla sem ég sá. Hefði alveg viljað vera lengur en það er víst ekki hægt að vera allstaðar.
Frekar rólegt var í Kjallaranum um helgina. Ég lokaði frekar snemma á föstudagskvöldið en reitingur var að gera í nótt svo ég var með opið til kl. 03.00. Ég er nýbúin að setja upp spald fyrir pílukast og þó nokkrir spreyttu sig á því um helgina. Spilavistin er síðan á föstudagskvöldið og undirbúningur þorrablóts í vændum. Ekkert nema skemmtilegt framundan.
Læt þessar hugleiðingar mínar nægja í bili.
Dægurmál | Breytt 29.1.2007 kl. 01:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.1.2007 | 11:23
Þórunn þokkadís.
Þórunn Inga kærastan hans Andra á afmæli í dag. Hún er nítján ára gömul. Þórunn er eineggja tvíburi svo systir hennar, Þóra Björg fagnar sínum afmælisdegi líka. Þær sveita stöllur eru frá Enniskoti í Víðidal sem er í Vestur Húnvatnssýslu og þar dvelja þær á afmælisdaginn. Stefnan er tekinn á þorrablót í Víðihlíð í kvöld og þar á án efa eftir að vera gaman. Ég hefði verið til í að vera þar með þeim.
Húsfrúin í Dæli í Víðidal er góð vinkona mín en þar rekur Sigrún ásamt Villa sínum myndarlegt ferðaþjónustubýli. Þangað fer ég reglulega í heimsókn og mér finnst æðislegt að vera þar. Elsa hefur unnið þar undanfarin sumur við þrif, hesta umhirðu og ýmislegt annað sem til fellur. Það verður að segjast eins og er, að þar sem ég og Sigrún koma saman, þar er gaman. Hún verður örugglega á blótinu í kvöld í Víðihlíð kerlingin sú. Það er alltof langt síðan við höfum átt góða kvöldstund saman.
Ég get sem sagt átt von á því að þegar ömmubörnin fara að hrúgast niður gætu komið tvö og tvö í einu. Þetta getur víst gengið í erfðir. Ég er þegar farin að koma með uppástungur varðandi nöfn á tvíburana og hef ég aðalega mitt nafn í huga enda einstaklega fallegt og passar bæði á drengi sem stúlkur. Litla Ragna og Jóhann litli er alveg tilvalið finnst ykkur ekki?
Heyrði sérstök mannanöfn nýverið eins og Stormur og Styr og Ljúfur og Spakur. Þetta hafði ég aldrei heyrt fyrr. Nafnið Glóð hljómaði í fyrsta sinn í eyrum mér nýverið, það er sérstakt en fallegt.
Ég átti að heita Guðbjörg Hjálma eftir langafa mínum og langömmu Hjálmari Þorsteinsson og Guðbjörgu Sigurðardóttur. Hjálmar hafði viðurnefnið Hjalli Tuddi en hann þótti skaptyggur á köflum en var mikið gæðamenni inn við beinið, þau ólu mömmu upp í gömlu húsi niður á Kambinum. Pabba dreymdi rétt fyrir skírnina mína að pabbi hans kom að vöggunni minni og bað um nafnið. Það var þá ákveðið að ég skildi heita Ragna Jóhanna í höfuðið á honum en hann hét Ragnar Jóhannsson og var frá Garðsstöðum. Hann dó ungur af slysförum og þótti fríðleiksmaður og framúr hófi myndarlegur. Það virðist fylgja nafninu. Margar bera nafnið hans, þ.m.t. Ragna á Laugarbóli.
Mig langar svo í lokinn að senda ykkur afmæliskveðju kæru systur Þórunn og Þóra. Góða skemmtun á blótinu í kvöld.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.1.2007 | 21:19
Fyrsta baðið.
Komst nú aldrei svo langt að fara á Hornstranda ráðstefnu í dag. Ætla að reyna að fara í fyrramálið og hlusta á erindi um hvert stefni í ferðaþjónustu- hagræn áhrif og möguleikar til framtíðar. Reyndar er margt annað áhugavert á morgun sem gaman væri að hlusta á.
Formaður Húsfriðunarnefndar Magnús Skúlason kom í heimsókn í Einarshúsið í dag en húsið hefur fengið styrki frá Fjárlaganefnd Alþingis sem Húsfriðunarnefnd útdeilir. Við erum mjög sátt við þann styrk sem runnið hefur til hússins. Magnús er stórskemmtilegur karl og ég heimsæki hann reglulega þegar ég fer suður. Hann er mjög umsetinn og upptekinn alla jafna og fólki ber að panta sérstaka viðtalstíma. Ég geri það aldrei heldur mæti á staðinn og brosi mínu blíðasta þegar Magnús maldar í móinn. Ég er ansi lagin við að brosa mínu blíðasta til þeirra sem hafa yfir að ráða peningum sem ég hugsanlega get nýtt til að gera upp húsið. Maður tapar aldrei á því að brosa. Næst þegar ég kem suður ætlum við að skella okkur í heita pottinn en hann fer daglega í sundlaugarnar. Magnús er mjög ánægður með þær framkvæmdir sem eiga sér stað í húsinu enda er þetta sögufrægt hús með mikla sögu.
Til gamans gríp ég niður í Einars sögu Guðfinnssonar.
Fyrsta baðkerið í Bolungarvík, sem vatn var leitt að, var í Einarshúsi. (Það var að vísu gamalt baðker úti í Sameinaða, en það var borið vatn í það.) Í baðkerinu í Einarshúsi fengu ýmsir utan heimilis að baða sig, þar á meðal læknirinn, Sigurmundur Sigurðsson. Það var nú svo um þann ágæta mann, Sigurmund, að þótt hann væri greindur, þá var hann misgreindur. Hann virtist til dæmis ekki vera sterkur í eðlisfræðinni, ef dæma má af aðförum hans í baðkerinu í Einarshúsi. Hann fleytifyllti ævinlega baðkerið, áður en hann fór niður í það, og þá náttúrlega sullaðist úr kerinu og flóði útum allt gólf.Gólfið var trégólf og undir baðherberginu var klæðaskápur Elísabetar og dætranna. Þær báru sig illa undan þessu flóði frá lækninum, en frúin harðbannaði að þetta væri nefnt við lækninn, því hún vildi ekki styggja hann, henni var vel til hans, eins og flestum Bolvíkingum. Þetta gerðist eins í hvert skipti, sem hann fór í bað, að hann fleytifyllti kerið og fór svo uppí það, og hann áttaði sig aldrei á þessari staðreynd, að þá myndi flæða útúr kerinu.
Ég vona að læknishjónin hér í bænum þau Íris og Lýður hafi tekið betur eftir í eðlisfræðitímum en doktor Sigurmundur.
Ekkert sérstak verður um að vera í Einarshúsinu um helgina. Opið eitthvað fram eftir nóttu eða eins og Vertinn nennir.
Gangið svo hægt um gleðinnar dyr.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2007 | 12:16
Dagurinn fer seint á fætur.
Dagurinn fer seint á fætur í dag eins og Halli Reynis segir í einu laga sinna, með öðrum orðum, ég er að drattast á lappir fyrst núna. Halli hélt tónleika í Kjallaranum fyrir nokkru síðan og við náðum vel saman og erum prýðiskunningjar. Misjafnt hvernig maður tengist fólki.
Hef verið að brjóta heilann um það hvernig ég geti fengið það sem mér ber fyrir tófuskottið og hef fengið þá ágætu hugmynd að senda bæjarsjóði svo ríflegan reikning fyrir blómkálssúpunni sem ég eldaði í gær af svo mikilli kostgæfni að bærinn og ég yrðum kvitt. Dreymdi í nótt að ég og Grímur vorum að rífast út af þessu máli, hann gnæfði yfir mér sótrauður í framan og las mér pistilinn. Það boðar örugglega eitthvað gott. Ég og Grímur rífumst ekki, bara kítum við og við. Það er reglulega gaman að skiptast á skoðunum við hann.
Auður systir hefur af því áhyggjur að ég verði of væmin í þessum bloggfærslum. Hún hefur hótað því að koma með alvarlega athugasemd ef ég missi mig inn á þær brautir. Ég er bara að reyna að vera jákvæð og sjá góðu hliðarnar á öllu og öllum. Það eru aðrir sem sjá um að halda því neikvæða á lofti.
Þannig að nú er þessi ágæta sysir mín orðin sjálfskipaður væmnisvörður sem sér til þess að öll væmni verði innan velsæmismarka. Annars yrði það mjög skemmilegt ef Auður færi að blogga, hún er nefnilega miklu meiri penni en ég og töluvert skemmtilegri. Yfirbragð hennar allt svo bjart, augun geisla líkt og stjörnur á himinboga, allt hennar fas er sólskini líkast og húmorinn hennar eins og tindrandi tunglskin. Það er mikil gæfa að mér skildi hlotnast að eignast hana fyrir systur.
Ég fyllist svo mikilli lotningu yfir þessu öllu saman að ég verð að taka mér hlé frá bloggfærslum í bili. Hver veit nema ég fara á ráðstefnu um Friðlandið á Hornströndum í dag.
Verðum í bandi.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.1.2007 | 00:06
Hugleiðing fyrir svefninn.
Mér finnst ég vera að svíkjast um, ekkert búin að blogga neitt í allan dag. Sumir dagar eru bara allt of stuttir og ég kemst ekki yfir að gera nærri allt sem mig langar til að gera. Ég held þetta hljóti að vera aldurinn.
Ég er svo sem búin að hafa nóg fyrir stafni þótt mér finnist ég stundum ekki koma neinu í verk. Bæjarráðið auk annara aðila sem hlut eiga að máli, átti fund með Rögnvaldi Ólafssyni fstm. stofnunar fræðaseturs Háskóla Íslands þar sem hann kynnti hugmyndir um stofnun Fræðaseturs HÍ í Bolungarvík sem hefði það að meginmarkmiði að stunda og efla rannsóknir á náttúru,ferðamálum og atvinnu-og menningarsögu Vestfjarða. Þarna er verið að ræða um eina stöðu fræðimanns til að byrja með sem myndi vnna náið með Náttúrustofu Vestfjarða. Mjög gleðileg tíðindi. Ég bar fram súpu og brauð ofan í þessa gesti í Einarshúsi og stóð í þessu fram eftir degi.
Verð að fara að halla mér og læt þetta duga í bili.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.1.2007 | 18:12
Með sól í hjarta.
Sólin sást í fyrsta skipti í dag á þessu ári. Ég var stödd í sparisjóðnum um hádegisbilið þegar hún sendi fyrstu geisla sína til okkar hér í Víkinni. Hún sést í skarðinu milli Heiðnafjalls og Kistufells yfir Reiðhjöllum. Það færðist bros yfir alla sem staddir voru í sparisjóðnum og það birti svo sannarlega yfir mannskapnum. Ef sparisjóðsstjórinn hefði verið þar á vappi, hefði ég örugglega hent mér í fangið á honum og rekið á hann rembingskoss í tilefni sólaruppkomu. Sólin hefur mikið að segja um líðan fólks og hún getur svo sannarlega dimmu í dagsljós breytt. Það er hefð fyrir því að borðaðar séu sólarpönnukökur með rjóma í tilefni slíkrar stundar og mamma brá ekki út af vananum og bar þær á borð fyrir gesti í dag.
Ég er svo sannarlega búin að vera með sól í hjarta í dag. Það er búið að panta eitt ef ekki tvö eintök af sögunni hans pabba þó ég sé ekki byrjuð á henni enn. Ef þetta er ekki til þess að stappa í mig stálinu þá veit ég ekki hvað. Ég er sem sagt byrjuð að taka á móti pöntunum. Gott þætti mér ef þið gætuð greitt bókina fyrirfram þar sem ég er ekki enn komin á launaskrá hjá Rithöfundarsambandinu og fæ því ekki nein listamannalaun. Reikningurinn er vel varðveittur í fjárhirslum sparisjóðs Hólshrepps í útibúi sjóðsins á Mölunum og er númer eitt. Bókin kostar fimmþúsund krónur og rennur allur ágóði af sölu hennar beint í minn vasa.
Þetta er auðvita eintómt bull og kjaftæði sem varasamt að taka mark á.
Hef heyrt því fleygt að stóra refa-og tófu skotts málið sé eitthvað farið að vinda upp á sig. Greinilega einhverjir pirraðir aðrir en Vertinn. Þetta eru svo sem bara sögusagnir en oft er sagt að sjaldan ljúgi almannarómur. Ég vek þó enn athygli á því að ég er ekki ófrísk og Gaui ( glæpur) er ekki þjófur, þannig að þar brást almannarómi bogalistin.
Fór á Ísafjörð í dag með Lilju í sjónmælingu, henni þótti sjónin vera farin að daprast blessaðri kerlingunni minni. Sem betur fer er þó allt í lagi ennþá. Reyndar fór Örn mjög ýtarlega yfir útreikninga á mjög vandasamri sjónmælingu og talaði af mikilli sérfræðikunnáttu um málið. Ég fór yfir þetta í huganum eftir ég kom frá honum og ég botna hvorki upp né niður í því sem hann sagði enda ekki sérfræðingur á sviði augn-og sjónmælinga.
Sá auglýsta útsölu í verslun einni á Ísafirði en slíkar auglýsingar virka eins og segull á mig. Ég keypti úlpu á prinsessuna mína og bauð henni síðan upp á safa og kleinuhring í Gamla bakaríinu.
Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort ég brosi ekki sólskinsbrosi eftir slíkan dag.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.1.2007 | 14:42
Meira um flokkaflakk.

Dægurmál | Breytt 26.1.2007 kl. 21:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Vertinn í Víkinni
Tenglar
Bloggarar
Fréttir
- vikari.is
- bb.is
- mbl.is
- visir.is
- skip.is
- bolungarvik.is
- Lögregluvefurinn
- Heimsýn Hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum
- Bjarnarnes-Sjótaxi
- Freydís sf. Ferðaþjónusta
- Gesthouse Mánafell Gisting í Bolungarvík
- Raggagarður í Súðavík
- Heimasíða Einarshússins
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.8.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 11
- Frá upphafi: 635895
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
vikari
-
hallasigny
-
omarjonsson
-
komediuleikhusid
-
katagunn
-
lydurarnason
-
jyderupdrottningin
-
ekg
-
sigrunsigur
-
majabet
-
skordalsbrynja
-
ingisund
-
gudfinna
-
sigmarg
-
maple123
-
730
-
730bolungarvik
-
grazyna
-
skodunmin
-
daglegurdenni
-
matthildurh
-
otti
-
vestfirdir
-
golli
-
kolgrimur
-
hressandi
-
gylfigisla
-
hugrenningar
-
jonatli
-
gudni-is
-
esterrut
-
toshiki
-
gudrunmagnea
-
101isafjordur
-
ylfamist
-
blossom
-
kaffi
-
gattin
-
ameliafanney
-
helgi-sigmunds
-
hross
-
skolli
-
thurygudm