8.9.2008 | 22:46
Hópdans með Laddawan á miðvikudagskvöld
Bryddað verður upp á þeirri nýbreytni í Einarshúsi annan hvern miðvikudag (ef næg þátttaka fæst)að bjóða upp á hópdans með Laddawan. Þar telst upplagt að dansfimir einstaklingar mæti einir og sér eða sitt í hvoru lagi til að æfa línudansa og hipp hopp eða bara allra handa einstaklingsdansa sem hver og einn getur lært með auðveldum hætti. Konur geta mætt með körlum sínum eða skilið þá eftir heima og öfugt. Einstæðir, fráskyldir, harðgiftir, tvígiftir og ógiftir eru hvattir til að mæta og skiptir ekki máli hverra þjóðar viðkomandi dansarar eru því allir geta sameinast í dansinum. Samkvæmisdansar verða ekki í boði að svo stöddu enda ekki nægjanlegt pláss til að stíga skottís, vals eða ræl í salnum. Erótísku dansarnir verða heldur ekki dansaðir upp við súlurnar enda er slíkur dans illa séður og einungis til þess fallinn að fá flísar úr timbursúlunum sem bera húsið uppi hirst og her. Aðalatriðið er að hafa gaman af uppátækinu og hressa upp á kroppinn og liðka hann til í bland við skellihlátur. Á eftir er svo hægt að kaupa dýrindis Swiss-Mocca af Vertinum í Víkinni á spottprís.
Fyrsti danstíminn er á miðvikudagskvöldið 10 september kl. 20:00. Aðgangur er 500 krónur og lagt er til að ÞÚ lesandi góður mæti á svæðið
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.9.2008 | 19:38
Blanda af hinu góða
Gummi Hjalta mátaði sig við stóra sviðið í Kjallaranum á laugardagskvöldið og var fantagóður. Röddin ómaði líkt og englakór væri samankomin undir himnahörpu frelsarans. Þetta er auðvitað orðum aukið en Gummi stóð sig vel og var nokkuð sprækur og hress. Fyrir þá sem voru svo óheppnir að missa af honum geta glaðst yfir því að hann á eftir að koma aftur og aftur og troða upp í þessu húsi glaums og gleði.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.9.2008 | 00:06
Þetta helst....
Að venju hefur verið nóg að gera í lifi margumræddrar. Fjórðungsþing Vestfirðinga nýafstaðið og þótti tilhlýðilegt að Vertinn í Víkinni sæti það ásamt öðrum fyrirmönnum þjóðarinnar. Það gekk hnökralaust fyrir sig og var bara einkar fróðlegt og skemmtilegt.
Fyrsta sprenging í Óshlíðargöngum var sprengd með hvelli á fimmtudaginn og bermálið ómaði um fjallanna hring. Titringurinn var töluverður og steinrunninn tröll tóku kipp af fögnuði er ljóst var að framkvæmdir væru hafnar við göngin. Ákvörðun um að ráðast í þessa framkvæmd var tekin í Kjallaranum í Einarshúsi er þingflokkur Sjálfstæðismanna kom í morgunkaffi á ferð sinni um fjórðunginn. Ekki það að Vertinn er svosem ekkert að eigna sér það sérstaklega enda alkunn af miklu lítillæti og óframfærni, aftur á móti má telja öruggt að það sem þar framfór hafi vakið ráðamenn þjóðarinnar til umhugsunar um nauðsyn þess að gera öruggan veg hér á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðarbæjar. Það varð svo ofan á að þessi leið var farin og er það vel og mega þeir sem komu í morgunkaffið í Kjallarann hér um árið eiga heiðurinn af því og engir aðrir.
Vertinn sá um stórveislu vegna þessara atburða og þær Gunna og Guðlaug gerðu kraftaverk eins og svo oft áður. Snittur og aðrar trakteringar voru á borð bornar fyrir alla sem vildu þiggja og vinnuhjú Vertsins í Víkinni stóðu sig með prýði eins og ætíð. Telja má víst að ekki væri hægt að reka Einarshús með öllu því sem því fylgir nema að hafa úrvals starfslið við höndina og títtnefnd má teljast afar lánsöm með vinnuhjú. Allir sem máli skiptir hópuðust svo í hús gleðinnar eftir veisluna síðar um kvöldið og skemmtu sér konunglega enda tilefni til að gleðjast og fagna. Þar nutu veiga menn af fjölmörgum þjóðernum enda eru bormenn Bolungarvíkur eins og heima hjá sér í þessu sögufræga húsi og ætíð velkomnir eins og allir aðrir. Kjallarinn hefur hlotið viðurnefnið "Hákarlabarinn" hjá sumum erlendum fastagestum hússins og ætla má að ástæðan sé hið magnaða sjóara andrúmsloft sem þar ríkir.
Ástin blómstrar svo í húsinu sem aldrei fyrr en hún hefur blundað í húsinu undanfarin hundrað ár og ekki að búast við öðru en að það haldi áfram. Húsið bókstaflega geislar af gleði vegna þeirra fjölmörgu sem líta við til að sýna sig og sjá aðra og kossa, kelerí og kitl þykir sjálfsagt að viðhafa í skúmaskotum og á bersvæði einnig ef svo ber undir.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2008 | 00:15
Ævintýri
Dagurinn í dag rann upp bjartur og fagur og beið þess að Vertinn stigi á stokk í öllu sínu veldi. Ævintýrin biðu handan hornsins og kúrðu í hálsakoti haustsins. Bankað var á dyrnar á Einarshúsi um hádegisbilið Vertinum í Víkinni að óvörum enda var húsið galopið og öllum frjáls innganga. Úti fyrir stóðu myndatökumenn með stórar myndavélar til að festa margnefnda á filmu er hún kæmi til dyra. Sjálfstætt fólk stóð glaðbeitt á tröppunum og biðu þess að gáttin á Einarshúsi opnaðist og títtnefnd birtist í öllu sínu veldi.
Það var engin aðdragandi, engin viðvörun, enginn tími til að sletta á sig kyssitaui og ekkert svigrúm til að spegla sig eða flikka upp á sig með einum eða öðrum hætti. Tíminn stóð kyrr eitt augnablik og andardráttur dagsins var varla merkjanlegur. Það vildi þó Vertinum til happs að flökkulæknirinn var með í för enda var hann aðalstjarnan í þessari uppákomu allri saman og er hann rauk með bros á vör inn í hús gleði og sorgar mátti vita að allt væri í stakasta lagi. Í framhaldinu færðist ró yfir margnefnda og doktorinn dró augað í pung og tíminn hélt áfram að tifa.
Míkrófónum og upptökutækjum var slengt á Vertinn og spurt var spjörunum úr á meðan maturinn var eldaður og uppákoman var líkt og margnefnd væri stödd í miðju ævintýri. Það skal ósagt látið hvort nokkuð af viti hafi komið frá téðum Vert í þessu viðtali og ekkert er vitað hvort það komi til með að birtast yfir höfuð en glöggt má þó sjá hve lífið hjá margnefndri virðist eintómur dans á rósum við lokkandi ljúfan vals.
Ef viðtalið birtist í fyllingu tímans er það meiriháttar auglýsing fyrir Einarshús og mun vekja álíka vellíðan hjá téðum Vert og pilluglas sneisafullt af gleðipillum skrifað upp á recept af Dr. Lýð.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.9.2008 | 21:34
Pétur og Einar
Leikritið sem hefur slegið í gegn og fjallar um frumkvöðlana Pétur Oddsson og Einar Guðfinnsson heldur áfram í húsi harma og hamingju í Bolungarvík. Fyrsta sýning haustsins hefst á fimmtudagskvöldið 4. september kl. 20:00 en einnig verða sýningar fimmtudagskvöldin 11. og 18. september á sama tíma.
Ljúft er að geta þess að hægt er með auðveldum hætti að panta sýninguna fyrir hópa og tilvalið telst fyrir starfsmannafélög sem vilja halda árshátíðir eða afmælisbörn sem vilja bjóða afmælisgestum upp á heillandi sögu sorgar og gleði að slá á þráðinn og festa eitt " show" eða svo. Einnig geta samkomur af öllu tagi pantað ljúffengan mat og notið svo sýningarinnar í framhaldinu og þess sem Einarshús hefur upp á að bjóða.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.9.2008 | 00:24
Í stíl við rest
Segjast verður alveg eins og er að nóg líf og fjör er umleikis hjá Vertinum í Víkinni um þessar mundir. Heimilislífið fjölbreytilegt enda fullt hús fjölskyldumeðlima og lífið er yndislegt og ætlar téður Vert að njóta þess fjölskrúðuga heimilishalds út í ystu æsar meðan það varir. Nýja "barnið" samlagast vel enda virðist hún hæfilega hrekkjótt og gamansöm og alveg í stíl við restina og allt gengur eins og blómstrið eina. Norska er töluð á heimilinu í bland við ensku og íslensku. Bjöguð golffranska er töluð í gríð og erg ef á þarf að halda og töluð er tunga þeirra sem hvorki skilja upp né niður í mæltu máli þegar hentar. Ida og Dollar tala þó alveg sama tungumálið og hundurinn laðast að henni eins og hinum stelpunum á heimilinu og segja má með sanni að hann sé lánsamur hundur.
Af fréttum úr Einarshúsi er þetta helst að nóg er af akkúrat mátulega drykkfeldum verkamönnum í bænum um þessar mundir sem sækja Kjallarann heim eins oft og þurfa þykir einhleypum vestfirskum fljóðum til mikillar ánægju. Án efa myndi einhver líkja ástandinu við ástandið á stríðsárunum er dátarnir mættu í úniformum uppstílaðir og flottir og heilluðu konurnar upp úr skónum en allt er þetta þó undir kontról hjá margnefndri. Ástin blómstrar ennþá í húsi harma og hamingju líkt og undanfarin 100 ár og augnagotur æða brennheitt um salinn og innviðir hússins hrífast með. Ilmur af framandi rakspíra blandast velliktandi angan bolvískra kvenna og lífið er ljúft.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2008 | 14:26
Tilboð í kolageymslunni
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2008 | 01:42
Út og suður
Segjast verður alveg eins og er að yfirbragð allt og útlit Vertsins í Víkinni er snöggtum skárra eftir upphalningu dagsins, þó nauðsynlegt teljist þó að geta þess að útlitið skammaði ekkert upp á yfirbragðið þrátt fyrir allt. Í tilefni af því að dekurrófan í Súðavík opnar Dekurhúsið að nýju þótti upplagt að Vertinn færi fyrst af öllum til að fríska upp á annars úfið hárið og léti laga til í brjálæðislegu yfirþyrmandi krullunum sem leggjast í allar áttir án þess að viðkomandi fái rönd við reist. Nú leggjast lokkarnir í unaðslegum dökkbrúnum liðum með gylltum slöngulokkum á víð og dreif og þökk sé henni Laufey. Eitt sinn þótti téðum Vert það alls ekki fínt að vera krullinhærð, en þakkar núna skapara himins og jarðar fyrir þau forréttindi að fá að hafa liðað hárið þó það standi út og suður og jafnvel norður og niður við hátíðleg tækifæri.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2008 | 14:19
Gúllassúpa í hádeginu á föstudag
Hin annálaða gúllassúpa mun verða framborin í hádeginu á morgun, föstudag, og þá er nú virkilega lag að mæta og njóta þeirra veiga sem í boði verða. Legg ég því á og mæli um að menn bjóði starfsmönnum sínum með öllu tilheyrandi í súpu og brauð en einnig mega allir hinir mæta líka meðan húsrúm leyfir og birgðir endast.
Hlakka til að sjá ykkur
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2008 | 00:21
Ákall til þorrablótskvenna 2008
Þá fer að koma að því að slíta naflastreng þorrablótskvenna sem voru saman í nefndinni árið 2008 endanlega. Til stendur að hittast heima hjá Vertinum í öllu sínu veldi nk. föstudagskvöld og horfa á spóluna sem tekin var á blótinu og dásama hversu frábærar við vorum í alla staði.
Borkonur Bolungarvíkur koma því saman einu sinni enn til skrafs og ráðagerða en ekki er ætlast til þess neitt sérstaklega að þær hafi meðferðis nein tæki og tól, einungis eitthvað góðgæti til að gæða sér á um kvöldið.
Sólrún, Sísí, Jóhanna, Halldóra, Dóra María, Sigga, Alda Karen, Magga, Dísa og Peta...... gerið ykkur klárar fyrir næsta föstudagskvöld því það stefnir allt í feikifjör.
Ef þú, lesandi góður, hittir þessar kerlur á förnum vegi, láttu þær þá vita að þær séu á leið í partý.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Vertinn í Víkinni
Tenglar
Bloggarar
Fréttir
- vikari.is
- bb.is
- mbl.is
- visir.is
- skip.is
- bolungarvik.is
- Lögregluvefurinn
- Heimsýn Hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum
- Bjarnarnes-Sjótaxi
- Freydís sf. Ferðaþjónusta
- Gesthouse Mánafell Gisting í Bolungarvík
- Raggagarður í Súðavík
- Heimasíða Einarshússins
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.8.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
vikari
-
hallasigny
-
omarjonsson
-
komediuleikhusid
-
katagunn
-
lydurarnason
-
jyderupdrottningin
-
ekg
-
sigrunsigur
-
majabet
-
skordalsbrynja
-
ingisund
-
gudfinna
-
sigmarg
-
maple123
-
730
-
730bolungarvik
-
grazyna
-
skodunmin
-
daglegurdenni
-
matthildurh
-
otti
-
vestfirdir
-
golli
-
kolgrimur
-
hressandi
-
gylfigisla
-
hugrenningar
-
jonatli
-
gudni-is
-
esterrut
-
toshiki
-
gudrunmagnea
-
101isafjordur
-
ylfamist
-
blossom
-
kaffi
-
gattin
-
ameliafanney
-
helgi-sigmunds
-
hross
-
skolli
-
thurygudm