Gjafinn fundinn

Það voru góðar fréttir sem þessi dagur hafði í farteskinu því stofnfrumugjafinn er loksins fundinn. 

Þá lauk á sama andartaki langri bið engra frétta sem var farin að reyna á taugar Vertsins í Víkinni og draga niður lundarfarið. Það verður bara að segjast alveg eins og er að það er þreytandi til lengdar að bíða endalaust eftir fréttum sem geta haft svo mikil áhrif á lífið og tilveruna að það hálfa væri heill hellingur. Ég var eiginlega farinn að halda að ég færi fyrr undir græna torfu en að fá gjafa og var meira að segja farinn að íhuga hvar ég ætti að láta hola mér niður ef til þess kæmi að ég hreinlega andaðist áður en ég fengi rönd við reist.

Jón Svanberg ætlaði að láta grafa mig upp aftur eins og gert var við Bobby Fisher ef ég væri komin sex fet undir þegar gjafinn fyndist og taldi hann það vera lítið mál. Halla Signý hræðist það allra mest að ég fái stofnfrumur úr Múslima og fái því ekki landvistarleyfi þegar ég ætla að koma aftur heim og Lilja er skíthrædd um að ég fái frumurnar úr hundi og þurfi að vera í Hrísey í fjórar vikur þegar ég kem aftur til landsins til viðbótar við meðferðina úti. Auður hefur síðan smá áhyggjur af því að ég verði kommúnisti og það þykir nú ekki per fínt í okkar herbúðum.

Ég reyni að hafa engar áhyggjur af þessu og læt sem ég sé að fara í frí og þegar að því kemur tek ég því sem fyrir höndum ber. 

Áður en ég fer út þarf ég að fara í lungnamyndatöku, lungnapróf, hjartaómskoðun, tannsérfræðings, augnlæknis, kvensjúkdómalæknis og guð má vita hvað því hvergi má vera misfella í skrokknum fyrir meðferðina. Það er bara eins gott að ég standist allar þessar skoðanir. Ég er fyrsti sjúklingurinn á landinu sem Guðmundur læknir, einn færasti blóðsjúkdómalæknir þjóðarinnar, sendir í slíka stofnfrumumeðferð til Svíþjóðar með þennan sjúkdóm, Myeloma og ástæðan er bara vegna þess hve ég er hraust og öll líffæri í fínu lagi. Ef einhver er góður kandídat hér á landi til að fara í þessa meðferð þá er það ég, sagði Guðmundur, og ekki lýgur hann.

Það er auðvitað áhætta en hvað er ekki áhætta í þessu blessaða lífi.

Það er mikls virði að allt gangi smurt og vel því lífslíkur mínar án þessarar meðferðar eru fimm til sjö ár og það er engan veginn ásættanlegt fyrir kerlingu eins og mig að fá ekki lengri tíma til að rífa kjaft við mann og annan. Því var dagurinn í dag mikill gleðidagur laughing

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Til hamingju með þetta :)

Ragnheiður , 4.7.2015 kl. 22:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 635332

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband