Fréttir

Það er nú orðið ansi langt síðan títtnefnd bloggaði síðast. Það hefur bara ekkert gefist tími neitt endilega til að segja fréttir og svo er þetta bara spurning um almenna leti svona yfirleitt.

Við höfum komið okkur vel fyrir í hreiðrinu okkar í Kópavogi og lifum eins og blóm í brúneggi og höfum það bara gott. Hér er allt sem hugurinn girnins bara rétt í nágrenninu og ekki undan neinu að kvarta. Títtnefnd býr upp á áttundu og það er stórkostlegt útsýnið í flestar áttir, gott ef ég sé ekki alla leið vestur þegar skyggnið er gott.

Lystarleysi hefur verið að hrjá mig undanfarna mánuði sem gert hefur það að verkum að vöðvarnir hafa rýrnað meira en góðu hófi gegnir. Rassinn sem eitt sinn var mitt aðalsmerki og lærin eru horfin, týnd og tröllum gefin og því varla sjón að sjá mig svona sérstaklega séð út á hlið. Það hefur orðið þess valdandi að ég hef oftar en ekki varla getað haldið mér á fótum og á tímabili hélt ég að ég væri á leiðinni í hjólastól. Ég hef auðvitað verið dettandi hirst og her þegar fæturnir hafa gefið sig en það kórónaði svo allt þegar ég datt í útitröppum beint á bakið. Að það skyldi ekki drepa mig er með ólíkindum og sannaði í eitt sinnið enn að það er bara ekki hægt að koma mér fyrir kattarnef. 

Æði mörg kíló hafa fokið út í veður og vind sökum þessa en vömbin er þó alltaf á sínum stað og haggast lítið. Þið ættuð að sjá mig í bringusundi því það eina sem stendur upp úr vatninu er það sem einu sinni var rass því vömbin þrýstir hausnum á mér á bólakaf og mér liggur við drukknun ef ég nota ekki kút og kork. Já það er margt mannanna bölið.

Eftir að ég komst á fría næringardrykki sökum vannæringar á apótekinu í boði Sjúkratrygginga Íslands er ég þó aðeins að fá styrkinn aftur, get krosslagt fætur án vandræða og er að styrkjast.

Títtnefnd var send í magaspeglun til að finna út hvað væri að valda þessu lystarleysi og þar fundust magasár og gamalkunnur vírus sem nefnist CMV sem dúkkað hefur upp tvisvar áður. Var ég sett á lyf við honum,nokkuð sterkan skammt til að byrja með sem veldur auðvitað auknu listarleysi svo kílóin eru enn að tætast af mér smátt og smátt en það mun koma jafnvægi á þetta að lokum.

Ég átti stefnumót við lækninn í dag og hjúkrunarfræðing og fékk mína síðustu barnasprautu í bili. Blóðsýni var tekið úr kellu sem sent verður til Svíþjóðar til að kanna hvort þjóðverjinn hafi ekki örugglega ennþá töglin og hagldirnar í mergnum mínum. Það er sko engin ástæða til að ætla annað enda er ekki snefill af sjúkdómnum í mér og læknirinn er mjög vongóður að hann gæti jafnvel verið horfinn fyrir fullt og fast amk. er það sem máli skiptir að hann haldi sig á mottunni sem lengst.

Þetta er svona þær helstu fréttir sem ég man í augnablikinu. Frúin er á leiðinni vestur til að sækja jólaskrautið og ýmislegt annað smálegt, sýna sig frá öllum hliðum og sjá aðra.

Það verður svei mér gott að komast í fjallaloftið um stund.

 


Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Nóv. 2016
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband